Heimavarnarliðið þakkar fólkinu

Ólafur Bjarni Halldórsson.

Samstöðufundurinn við Gilsfjarðarbrú á annan í hvítasunnu sendi frá sér skýr skilaboð. Það ber að standa við þær samþykktir sem gerðar voru á Borgarafundinum á Ísafirði þann 24. september 2017 sem fjórir þáverandi ráðherrar tóku allir undir.

Fundurinn í Gilsfirði var haldinn í glaða sólskini, austlægum vindi með góðu útsýni út á ægifagran Breiðafjörð. Við sem stóðum að undirbúningi hans viljum færa því ágæta fólki sem kom til liðs við okkur sérstakar þakkir.

Ræðumennirnar tveir fluttu báðir mjög beinskeytt og hnitmiðuð ávörp. Guðrún Finnbogadóttir sem numið hefur bæði umhverfisstjórn og sjávarútvegsfræði kann vel að greina á milli mikilvægis þess að vernda umhverfi okkar og nýta það sem í náttúrunni býr til fólk megi njóta þeirra gæða sem nútíma samfélag krefst, án tillits til hvar það býr. Þessi gæði eru meðal annars örugg raforka, traustar samgöngur og fjölbreytt atvinnulíf. Magnús Erlingsson flutti sannkallaða eldmessu sem meðal annars varpaði ljósi á löst sem frá öndverðu hefur fylgt mannkyni – hræsnina. Hræsnin felst til dæmis í því að leggja veg heim að sumarbústöðum en geta ekki unnt almenningi þess að komast leiðar sinnar með skaplegum hætti. Sigmundur F. Þórðarson stjórnaði fundinum af þvílíkri röggsemi að enginn skyldi efast um að þrautþjálfaðir jólasveinar fipast ekki í sínu hlutverki.

Það verður ekki látið staðar numið hér. Það verður haldið áfram þar til Vestfirðir verða hringtengdir með öruggri raforku, þar til Ísafjarðardjúp verður enn á ný að þeirri gullkistu sem það hefur verið um aldir en í nútímanum með eldi á silfurlitum fiski sem verður eftirsóttur um allan heim og þar til Vestfirðir verða hringtengdir með vegum sem hæfa nútíma samfélagi. Stjórnmálamönnum, hvort sem er í sveitastjórnum eða á Alþingi mun ekki veitast sá munaður að sofa á verðinum fyrr en þessum markmiðum er náð.

Að lokum, Guðrún Finnbogadóttir, Magnús Erlingsson, Sigmundur F. Þórðarson, þeir sem lánuðu okkur tæknibúnað og allt það ágæta fólk sem ók langa vegalengd til að sýna ómetanlega samstöðu. Hafið heilar þakkir fyrir ykkar verðmæta framlag.

Ólafur Bjarni Halldórsson

DEILA