Glöggt er gests augað

Karen Gísladóttir.

Stundum er það svo að þegar við erum búin að vera á ákveðnum stað lengi, jafnvel alla ævi eða lengi í ákveðnum aðstæðum verðum við ekki vör við þær breytingar sem eiga sér stað í kringum okkur.

Árið 2011 kom ég til Ísafjarðar í nokkurra daga sumarfrí. Á móti mér tók mögnuð veðurblíða og var dögunum varið utandyra og bærinn genginn hátt og lágt. Ég man hvað mér fannst mikil synd hve mörg hús stóðu tóm, viðhaldi var ábótavant og götur margar hverjar illa farnar. Ég fékk ekki þá tilfinningu að hér væri uppgangur. En bæjarstæðið, fjöllin og hafið, heillaði svo sannarlega.

Þessi ferð til Ísafjarðar setti mark sitt á hjartað. Hvort það er sú staðreynd að ég er sjálf alin upp í sjávarþorpi, að amma mín ólst upp í Aðalvíkinni, eða annað er erfitt að segja en í þessari heimsókn kom hugmyndin fyrst um að flytja vestur. Árið 2014 fékk ég svo spennandi atvinnutækifæri á Ísafirði og við litla fjölskyldan fluttum úr Hafnarfirðinum vestur til Ísafjarðar í maí það sama ár.

Leikskólamál í rétta átt

Sem nýr íbúi í þessu samfélagi hef ég sennilega orðið aðeins meira vör við þær breytingar sem okkar fallegi bær hefur tekið á þessum 4 árum en margur heimamaðurinn. Í-listinn hefur svo sannarlega tekið til hendinni hvað varðar ásýnd margra gatna og er alls ekki hættur. Húseigendur hafa upp til hópa fylgt með af metnað og dug til að hafa snyrtilegt í kringum sig. Ég vil meina að þetta haldist í hendur, þegar gatan er orðin gleði fyrir augað vilja húseigendur leggja sitt af mörkum til að fylgja götumyndinni. Einnig hefur verið tekið til hendinni hvað varðar göngustíga og útivistarsvæði bæði hvað varðar ásýnd og aðgengi.

En það er ekki bara þetta sem skiptir máli fyrir mig sem íbúa Ísafjarðarbæjar, heldur líka sú staðreynd að hér er gott að vera með barn á grunnskólaaldri og unnið hörðum höndum að því að koma leikskólamálum í gott horf. Inntökualdur leikskólabarna hefur lækkað á kjörtímabilinu. Á stefnuskrá Í-listans er að lækka hann enn frekar og gera það að reglu að taka börn inn við 12 mánaða aldur.

Ekki má láta deigan síga

Íbúalýðræðið er svo sannarlega verkefni sem vert er að veita athygli. Með íbúalýðræði fáum við sem hér búum rödd og tækifæri til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar í okkar nærumhverfi. Stjórnsýslan er einnig gagnsæ og eiga íbúar greiðan aðgang að hverskonar upplýsingum sem snúa að stjórn sveitarfélagsins og þjónusta stofnana sveitarfélagsins góð. Það ber að fagna því sem vel er gert en að sama skapi má ekki láta deigan síga heldur halda áfram að gera vel.

Nú eru kosningar um næstu helgi og mörg mál sem brenna á fólki. Ég er þannig gerð að ef ég hef skoðun á einhverju sem að mínu mati má betur fara þá reyni ég að koma henni á framfæri og hafa áhrif. Ég skipa 11. sæti Í-listans í komandi kosningum og langar að leggja mitt á vogarskálarnar til þess að sveitarfélagið okkar haldi áfram að vaxa og dafna. Eru það helst lýðheilsumál og skipulag íþróttamannvirkja sem eiga hug minn og hjarta ásamt atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Lýðheilsa er grundvallarmál

Í nútíma samfélagi er hreyfing stór partur af lífi okkar. Ef við viljum laða til okkar ungt fólk, til að taka þátt í uppbyggingu samkeppnishæfs samfélags er góð aðstaða til hreyfingar og líkamsræktar grundvallaratrið sem þarf að vera til staðar. Skýr stefna um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem styðja við heilsu og hreysti bæjarbúa er brýnt mál. Á þessu ári verður hafist handa við byggingu knattspyrnuhúss og framtíðarlausn á líkamsræktaraðstöðu er í farvatninu.

Ég vil því hvetja ykkur sem þetta lesið til þess að kjósa Í-listann í komandi kosningum, gefa okkur áframhaldandi brautargengi til að vinna í þeim málum sem við erum byrjuð á og klára þau sem eru í farvatninu. Því á þeim 4 árum sem ég hef búið hér hef ég tekið eftir miklum breytingum til hins betra og mig langar að sjá okkur áfram á þeirri braut.

Karen Gísladóttir

Höfundur er í 11. sæti Í-listans

DEILA