„Ég er mikill Sjálfstæðismaður þó ég hafi oft þurft að berjast við menn í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Marinó Hákonarson, formaður Hestamannafélagsins Hendingar í samtali við BB. „Og það gladdi mig mikið að lesa stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir þessar kosningar og sjá að eitt af forgangsmálum þeirra er að beita sér fyrir því að gerðir verði uppbyggingarsamningar til lengri tíma við íþróttafélögin í bæjarfélaginu.
BB hafði samband við hann vegna þess að þann 30. apríl síðastliðinn lagði íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar fram drög að uppbyggingarsamningi við hestamannafélagið Hendingu. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að samþykkja drögin en þau voru svo lögð fyrir á bæjarstjórnarfundi fimmtudaginn 3. maí. Forseti bæjarstjórnar, Nanný Arna Guðmundsdóttir, lagði þá fram breytingartillögu að ósk minnihluta bæjarstjórnarinnar sem hljóðar svo: „Bæjarstjórn lýsir yfir vilja til að gerður verði uppbyggingarsamningur við Hestamannafélagið Hendingu vegna ársins 2018 með 3ja milljóna króna framlagi Ísafjarðarbæjar, í samræmi við framlagða tillögu, og að hann verði lagður fyrir bæjarráð ásamt nauðsynlegum viðauka við fjárhagsáætlun.“ Breytingartillagan var samþykkt 5-0 en fjórir sátu hjá. Málum lauk samt þannig að áframhaldandi viðræðum um uppbyggingarsamninginn var frestað fram yfir kosningar. Þetta vissi Marinó ekki fyrr en eftir á. Málið var talið of eldfimt til umfjöllunar og ákvarðanataka svona nálægt kosningum, þrátt fyrir að eitt og hálft sé liðið síðan samningurinn varð til.
En sagan er auðvitað lengri en þetta eins og margir vita. Þegar áformað var að leggja jarðgöng til Bolungarvíkur lá fyrir að þau færu yfir svæði Hendingar og finna yrði nýjan stað fyrir hestaíþróttir á svæðinu. „Við héldum að Ísafjarðarbær og Vegagerðin myndu bæta okkur svæðið en þeir tóku það í rauninni bara. Ég og fleiri færðum okkur yfir í Engidal með hestana og þar voru gerð plön fyrir uppbyggingu hestaíþróttarinnar, gert ráð fyrir hesthúsum fyrir um 300 hesta, reiðhöll og reiðvelli. Aðeins örfá þessara húsa eru risin núna og þarna fyrir tólf árum hét ég félagsmönnum mínum því að ég myndi loka þessu máli. Ég hef farið í gegnum þrjár bæjarstjórnir til þess og hélt að því væri lokið fimmtudaginn seinasta og uppbyggingarsamningur til næstu ára yrði samþykktur. Svo fór ekki þannig að ég mun líklega hitta fjórðu bæjarstjórnina eftir kosningar,“ segir Marinó og er hvergi bangin.
„Árin 2010 og 2011 stóð hreinlega til að við myndum stefna Ísafjarðarbæ fyrir vanefndir,“ bætir Marinó svo við, en þá var búið að draga hestaíþróttamenn fram og aftur í þessu ferli, mörgu lofað en lítið efnt og að sögn hans hefur Hending aldrei fengið krónu frá bænum. „En ég kann núverandi bæjarstjórn þakkir fyrir að setjast niður með okkur og loksins ræða þetta málefnalega. Í desember 2016 komumst við að samkomulagi um að byggð yrði reiðhöll og í júní 2017 undirrituðum við uppbyggingarsamning, sem þýðir að það á að fara í þessar framkvæmdir á miklu lengri tíma en til stóð. En gegn því að hestamannafélagið Hending geri engar frekari kröfur á Ísafjarðarbæ,“ segir Marinó. „Orð skulu standa,“ bætir hann við. „Hvort sem þú ert í Sjálfstæðisflokknum eða einhverjum öðrum flokki.“
Verkfræðistofan Verkís og tækniþjónusta Ísafjarðarbæjar hafa grandskoðað svæðið í Engidal þar sem áformað er að reisa reiðhöll, skeiðvöll og æfingasvæði á komandi árum. Í maímánuði er áformað að byrja að grafa fyrir reiðhöllinni, steypa sökkla í júní og í júlí á ný reiðhöll helst að vera risin. „Við erum nokkrir iðnmenntaðir í Hendingu sem ætlum að vinna sem mest við þetta,“ segir Marinó. „En þetta mun gjörbreyta öllu fyrir barna og unglingastarf í hestaíþróttum í Ísafjarðarbæ. Það er líka svo hollt fyrir börn og gaman að umgangast hesta. Ég segi stundum að þetta sé íþrótt sem er hægt að stunda fram á grafarbakkann. Fyrir mörgum árum voru líka keyptir hnakkar fyrir fatlaða, þó það væri ekki komin aðstaða þá, því hestaíþróttin er víðsvegar notuð í sjúkraþjálfun með góðum árangri,“ segir Marinó Hákonarson að lokum.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com