Ég hef verið spurður hvort það sé trúverðugt hjá okkur sjálfstæðismönnum að ætla að ráðast í stórframkvæmdir eins og t.d. byggingu fjölnota íþróttahúss, gerð gervigrasvallar, viðbyggingu við Eyrarskjól, átak í viðhaldi á götum, gangstéttum og húsnæði í eigu bæjarins og gerð framtíðarhúsnæðis fyrir líkamsræktarstöð, og á sama tíma ekki ætla að auka skuldir. Við þessum vangaveltum er tvennt að segja.
Langtímaskipulag
Í fyrsta lagi snýst þetta um að gera langtímaáætlun. Ég tel að það vilji svo ánægjulega til að öll framboðin séu í grundvallaratriðum sammála um þessi stóru verkefni. Ég er líka alveg sannfærður um að við getum vel náð sátt um nánari útfærslu á framkvæmdunum og komið okkur saman um áætlun sem nær yfir nokkur kjörtímabil. Mig langar mikið til að við sem erum kosin af bæjarbúum til að taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd reynum að koma okkur saman um langtímáætlun. Þar með gætum við stillt upp áætlun sem ekki yrði kollvarpað þótt nýr meirihluti tæki við. Hugsum okkur að við fáum nýjan meirihluta sem hefur kannski 51% bæjarbúa á bakvið sig. Er þá lýðræðislega rétt að áform um framkvæmdir taki ekkert mið af vilja þeirra sem eru fulltrúar fyrir 49% íbúanna? Ég er sannfærður um að þetta er vel framkvæmanlegt og ég er líka sannfærður um að slík langtímaskipulagning í sátt væri til mikilla hagsbóta fyrir bæinn okkar.
Framkvæmdir
Á síðasta kjörtímabili, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, voru Dalbraut og Heiðarbraut í Hnífsdal endurbyggðar og á þessu kjörtímabili voru Hlíðarvegurinn og Bæjarbrekkan á Ísafirði endurbyggð. Á síðasta kjörtímabili fóru tæplega 200 milljónir á ári í viðhald. Á þessu kjörtímabili fóru líka tæplega 200 milljónir á ári í viðhald en þó vissulega 300 milljónir á síðasta árinu fyrir kosningar.
Á síðasta kjörtímabili reistum við hjúkrunarheimilið Eyri sem er bókfært á u.þ.b. 1300 milljónir en þrátt fyrir mikla verðbólgu sum árin jukust skuldir við þessa stóru framkvæmd bara um 700 milljónir. Með öðrum orðum má segja að við höfum farið í nýframkvæmdir upp á 600 milljónir án þess að auka skuldir.
Aðhald
Vegna þenslu í samfélaginu eru tekjur bæjarins árið 2017 í kringum 1300 milljónum hærri en árið 2014. Útsvar hefur hækkað mikið vegna launahækkana, fasteignagjöld hafa hækkað mikið vegna hækkunar fasteignamats á öllu landinu og í Ísafjarðarbæ hefur álagningarprósentunni verið haldið óbreyttri, tekjur hafnarsjóðs hafa aukist mikið vegna aukinna umsvifa og tekjur frá Jöfnunarsjóði hafa aukist gríðarlega vegna aukinna tekna ríkissjóðs. Allt eru þetta gleðitíðindi.
Svo svarið við spurningunni er einfalt: Já fyrst við gátum á síðasta kjörtímabili í raun sett að meðaltali 150 milljónir á ári í Eyri umfram það sem við tókum lán fyrir þá treystum við okkur til að til að setja 500 milljónir á ári í stórframkvæmdir þegar tekjur bæjarins eru orðnar 1300 milljónum hærri á hverju ári. Auðvitað þurfum við að vanda okkur en til þess erum við líka kosin.
Jónas Þór Birgisson, frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ