Gengið í ljósið á Ísafirði

Mynd af sólarupprás.

Snemma morguns laugardaginn 12. maí, klukkan 4 nánar tiltekið, verður gengið úr myrkrinu í ljósið á Ísafirði, Akureyri og Reykjavík. Ganga þessi er til styrktar og í samvinnu við Píeta samtökin á Íslandi, sem eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Er þetta í fyrsta sinn sem slík ganga er haldin á Ísafirði en að henni standa nokkrir áhugasamir Ísfirðingar sem er málið kært.

Gangan er í minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðanar, sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða.

Gengin verður fimm kílómetra leið frá Guðmundarbúð, húsnæði Björgunarfélags Ísfirðinga, áleiðis út á Hnífsdalsveg með stuttu stoppi á miðri leið. Lýkur göngunni svo í Guðmundarbúð þar sem göngufólki verður boðið upp á morgunhressingu í boði velunnara göngunnar í Ísafjarðarbæ og nágrenni.

Forsvarsmenn göngunnar hvetja fólk til að ganga á sínum forsendum og vona að bjartur vormorguninn verði til að lýsa upp minningu látinna ástvina, hjálpi til við huggun og veki umhyggju og von hjá göngufólki.

Píeta samtökin bjóða upp á ókeypis úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum, með sjálfsskaða og aðstoð fyrir aðstandendur og þá sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.

Hægt er að skrá sig í gönguna og greiða með því að fylgja leiðbeiningum á pieta.is eða hafa samband í síma 858-0805 við Sigríði. Hægt verður að greiða með korti og peningum á staðnum, en þá er betra að mæta tímanlega og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að klæða sig eftir veðri.

Á Facebooksíðu viðburðarins verða settar inn allar nauðsynlegar upplýsingar.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA