Spennan magnast þegar að við göngum til kosninga. Ekki hafa komið neinar kannanir þannig að erfitt er að meta hvernig niðurstaðan verður. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum fundið fyrir miklum meðbyr síðustu daga og vikur. Fólk virðist vilja hlusta á málefnalegan málflutning okkar og rökfestu. Sýn okkar er og hefur verið skýr, við ætlum að beita okkur að fremsta megni til að búa til enn betra samfélag. Styðja við uppbyggingu atvinnulífs, fara vel með peninga bæjarbúa á sama tíma og við fjárfestum til framtíðar.
Við munum fjölga leikskólaplássum
Margir ræða við okkur um leikskólamál. Það er forgangsatriði að taka á því máli. Við ætlum að sjá til þess að börn komist á leikskóla 12 mánaða gömul, öll börn ekki bara sum. Þetta mál verður sett í algjöran forgang.
Fjölnota knattspyrnuhús eins fljótt og hægt er
Stefna okkar í íþróttamálum hefur verið skýr frá því fyrir síðustu kosningar. Við ætlum að byggja fjölnota íþróttahús á Torfnesi og við ætlum að leggja gervigras á núverandi keppnisvöll sem hluta af sömu framkvæmd. Við höfum aldrei stutt hugmyndir um endurbætur á sundlauginni við Austurvöll. Við erum sem sagt ekki að gefa í og úr eftir því hvernig vindar blása og við erum öll á listanum sammála um þessar áherslur.
Ef við fáum til þess umboð verður strax farið í að byggja fjölnota knattspyrnuhús sem og stækkun Eyrarskjóls. Þessum verkefnum verður lokið eins fljótt og mögulegt er. Vonandi innan 12-24 mánaða.
Samvinna og samstaða fyrir þig
Við ætlum líka að vinna fyrir allan Ísafjarðarbæ, viðhalda honum öllum og veita öllum hverfum og byggðarlögum athygli. Það er líka mikilvægt að ná samstöðu allra flokka og gera tilraun til þess að vinna að sameiginlegum málamiðlunum. Það er ekki boðlegt að fara í mörg hundruð milljón króna framkvæmdir í fullkominni óeiningu. Við mundum leita allra leiða til að ná samstöðu um stóru málin.
Hverjum treystir þú best?
Kosningarnar núna snúast um það hverjum er treystandi til að stýra bænum næstu 4 árin. Hverjum treystum við til að gæta hagsmuna okkar. Sækja fram um okkar hagsmunamál. Ég tel að listi sjálfstæðisflokksins sé afar vel skipaður. Ósk mín er að bæjarbúar séu sama sinnis. En sama hvernig fer geta bæjarbúar treyst því að við munum leggja okkur öll fram fyrir alla bæjarbúa.
Kveðja
Daníel Jakobsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.