Erla Rún ljósmóðir

Erla Rún ljósmóðir.

Flest allir sem eiga börn á norðanverðum Vestfjörðum þekkja hana Erlu Rún Sigurjónsdóttur, ljósmóður á Ísafirði. Erla er best. Það er bara þannig. Enginn er jafn góður og hún í að færa fólki sorglegar fréttir, án þess að buga fólk um leið og enginn er jafn góður í að gleðjast með foreldrum í hverjum áfanga í aðdraganda fæðingar og eftir þær. Erla Rún útskrifaðist sem ljósmóðir árið 2009 og kom hingað vestur árið 2011. Hún hefur sem sagt unnið megnið af sinni starfsævi sem ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Á þessum árum hefur hún tekið á móti um það bil 120 börnum. Og hlúð þess vegna að og verið hundruðum foreldra innan handar því hún sinnir einnig þeim sem fæða annarsstaðar. Síðustu tvö ár hefur Erla verið eina fastráðna ljósmóðirin á Ísafirði. Á móti henni vinna afleysingaljósmæður sem koma að, en Erla reynir að raða því þannig að nánast öll mæðraverndin sé á hennar könnu. „Ég vil að konur fái samfellu í mæðravernd,“ segir Erla í samtali við BB. „Svo er ég líka að sinna konum eftir fæðingu og heimaþjónustan, sem ég sinni fyrsta mánuðinn í lífi barna, rennur dálítið saman við ungbarnaverndina. Og þessi vinna er það sem ég geri yfirleitt á daginn.“

Erla er auðvitað ekki bara á Ísafirði heldur keyrir hún í þorpin og bæina í kring til að sinna nýbökuðum foreldrum og börnum þar. Hún vinnur ekki samkvæmt samningum við sjúkratryggingar eins og margar aðrar ljósmæður því kerfið er örlítið öðruvísi hérna. Hún vinnur á sjúkrahúsinu þar sem heimaþjónustan fléttast inn í starfið og konur liggja oft örlítið lengri sængurlegu en til að mynda í Reykjavík. Það breytir því þó ekki að kjarabarátta ljósmæðra snertir Erlu mikið. „Það sem mér finnst liggja fyrst og fremst á hérna eru stofnanasamningar sem hafa verið vanræktir til fjölda ára. Það snýst ekki bara um hvað launataflan leyfir, heldur hvað fjármagn til sjúkrahússins leyfir að hver og einn fari hátt upp á launatöfluna. Það er helsti þröskuldurinn hér. Það hefur staðið til að gera nýja samninga og núna þarf virkilega að gera gangskör að því,“ segir Erla ákveðin.

Eins og áður var sagt vinna afleysingaljósmæður á móti Erlu Rún. Hún reynir eftir fremsta megni að fá sömu konurnar til að koma endurtekið þó það gangi ekki alltaf upp. „Það er mikil vinna að reka deildina ein. Ég er á sólarhringsvöktum og fæ auðvitað ekki alveg alltaf afleysingu þegar ég vil það,“ segir Erla og hljómar örlítið afsakandi. „En maður lætur hlutina alltaf ganga,“ bætir hún ákveðið við. „Kjarabaráttan hefur enn sem komið er ekki haft áhrif á það hvort hingað komi afleysing en kjör ljósmæðra hafa áhrif á það hvort konur vilja ráða sig til þessara starfa. Fyrir laun sem eru ekki starfinu samboðin. Þessi kjarabarátta skiptir okkur allar máli. Launasetning ljósmæðra hefur dregist mjög mikið aftur úr launum annarra sambærilegra stétta. Við viljum bara að námið sé metið að verðleikum. Og ef það er ekki hægt að nota góðæristíma til að laga svona hluti, hvenær er það þá hægt?“

Erla Rún segist hafa orðið reið þegar hún sá að samningur heimaþjónustuljósmæðra við sjúkratryggingar hefði ekki verið undirrittaður óbreyttur, heldur þess krafist að vitjunum til kvenna eftir fæðingu yrði fækkað og þá fengju ljósmæður launahækkun. „Ég trúi því ekki að stjórnvöld sjái ekki hagræðið af því að borga ljósmæðrum viðeigandi laun. Þetta er mjög hagkvæm þjónusta og við eigum að meta það sem við eigum, sem er mjög gott kerfi fyrir ófrískar konur.“

En af hverju starfar Erla Rún sem ljósmóðir? „Af því það er æðislegt,“ svarar hún og hlær. „Maður nær svo góðri persónulegri tengingu við konur og þetta er auðvitað kraftaverk. Ég er svo heppin að fá að vinna við kraftaverk. Markmið mitt fyrir hverja konu er að gera fæðinguna að jákvæðri upplifun,“ bætir hún við. „Að fæðingin verði valdeflandi fyrir konur. En þetta starf er ekki metið að verðleikum. Það virðist alltaf vera minna verðmætt að höndla með líf heldur en peninga.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA