Harmonikufélag Vestfjarða stendur fyrir dagskrá á Degi harmonikunnar laugardaginn næsta, 5. maí, í Félagsheimilinu á Þingeyri. Dagskráin stendur frá kl. 15 til 17 en Kvenfélagið Von sér um veitingar, sem seldar verða á vægu verði.
Ásvaldur Guðmundsson, frá Núpi í Dýrafirði, og félagi í Harmonikufélagi Vestfjarða segir í samtali við blaðamann BB að það sé stór hópur á Þingeyri sem spili á harmoniku. „Við erum með hóp sem er að æfa hérna á Þingeyri, við köllum okkur Harmonikukarlana. Við æfum einu sinni í viku og erum nokkurs konar hljómsveit. Við erum átta til tíu virkir í þessu en svo erum við með orgelspilara og söngkonu með okkur líka, hana Eddu, búkonu á Mýrum.“
Harmonikukarlarnir munu spila nokkur lög en Ásvaldur segir að svo fái þeir góða gesti. „Snillingarnir frá Ísafirði verða með, þeir Villi Valli og félagar. Þeir spila mest á ballinu.“
En finnur Ásvaldur fyrir miklum áhuga á harmonikutónlist á Þingeyri? „Félagið okkar er 30 ára gamalt og það er nú svolítið skemmtilegt að hugsa til þess hvað það eru margir hér á Þingeyri sem kunna að spila. Miðað við íbúafjölda á Þingeyri þyrftu örugglega 8000 manns að spila á harmoniku í Reykjavík, til þess að það væri sambærilegur fjöldi.“ Ásvaldur segir að það vanti samt fleira yngra fólk í félagið. „Það koma ekki nógu margir ungir inn í þetta. Þeir sem eru að læra í dag eru líka kannski að spila svolítið annað en við, ekki þessa danstónlist.“
Margrét Lilja
milla@bb.is