Í-listinn vill gera eins vel við börn og barnafjölskyldur eins og hægt er. Þannig bætum við lífsgæði og styrkjum Ísafjarðarbæ sem búsetuvalkost.
Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka höfum við lagt mikla áherslu á skólamálin. Við höfum fjölgað leikskólaplássum með því að opna 5 ára deildina Tanga, aukið þjónustu við foreldra, bætt aðbúnað kennara og tölvuvætt grunnskólana enn frekar.
Við endurskoðun skólastefnunnar var lögð mikil áhersla á samráð við kennara, nemendur og íbúa sveitarfélagsins, með opnum fundum, opnum facebookhópi og vinnufundum nemenda og kennara, þetta hefur reynst afar vel. Við höfum lagt mikla áherslu á upplýsingaflæði er kemur að leikskólanum og notað facebook síðu í þeim tilgangi. Foreldrar geta þá með auðveldum hætti haft áhrif á þá þjónustu sem snertir börnin þeirra og komið athugasemdum sínum á framfæri á skjótan og auðveldan hátt. Þetta reyndist sérstaklega vel þegar við stóðum frammi fyrir mikilli þörf fyrir auknu leikskólarými. Samráð við þá sem þjónustan snýst um samræmist stefnu Í-listans um aukið íbúalýðræði. Aðkoma foreldra, sem eru sérfræðingar í sínum börnum, skiptir gríðarlega miklu máli til að búa til gott og afslappað náms- og leikumhverfi fyrir börn.
Starfsumhverfi kennara í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins á að vera gott. Við stækkun leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði verður lögð áhersla á gott vinnurými fyrir kennara og góða aðstöðu fyrir kennara og starfsfólk. Sú stækkun er þegar hafin. Fullnaðarhönnun er á fjárhagsáætlun 2018 og framkvæmdin er á fjárhagsáætlun 2019. Sú stækkun mun fjölga leikskólaplássum töluvert og auka sveigjanleika leikskólanna til að taka á sveiflum í árgangastærðum.
Við höfum lagt áherslu á að tölvuvæðingu grunnskólanna, bæði fyrir kennara og nemendur og verið með virka endurmenntunarstefnu fyrir kennara svo þeir getu betur nýtt sér breytta kennsluhætti.
Nám barna
Það er leikur að læra. Börn þroskast og læra í gegnum um leik, bæði sjálfsprottinn en ekki síður í skipulögðu starfi sem byggir á áhuga þeirra og færni. Tómstundaiðkun er mikilvægur þáttur í mótun og uppvexti barna. Því verður lögð áhersla á að auka enn frekar fjölbreytt tækifæri þeirra til að leggja stund á uppbyggilegar tómstundir. Skólarnir okkar eiga að vera framúrskarandi þar sem börn byggja ofan á styrkleika sína og læra að takast á við nýja og þroskandi hluti full af sjálfstrausti og áhuga. Því viljum við leggja áherslu á:
- að skólarnir þroski börn til innihaldsríkrar þátttöku í samfélaginu
- sköpun, gagnrýna hugsun, samskiptafærni og tæknilæsi
- að möguleikar lotubundins náms verði kannaðir m.a. til að styrkja smærri skólana okkar
- að börn af erlendum uppruna fái nauðsynlegan stuðning í námi til fullrar þátttöku í samfélaginu
- að börn greiði ekki fyrir nauðsynleg gögn eða verkfæri í skólum
- að auka upplýsingagjöf til foreldra í leik- og grunnskóla, ekki síst innflytjenda
- koma til móts við þarfir minni skólanna með aukinni sérfræðiaðstoð og skipulagðri samvinnu
Sérfræðiþjónustu og geðheilbrigðismál
Góð líðan er lykillinn að farsælu námi. Í framúrskarandi skólum þurfa að vera virkir verkferla og góð verkfæri til að aðstoða öll börn svo skólaganga þeirra verði ánægjuleg og menntandi. Því ætlum að leggja áherslu aukna þjónustu við börn og kennara með því að
- auka aðgengi að sérfræðiþjónustu og beita snemmtækri íhlutun til þeirra barna sem á því þurfa að halda
- efla markvisst aðstoð við börn og ungmenni til að takast á við kvíða, t.d með bættri þjónustu sálfræðinga
- auka forvarnir og fræðslu um geðheilbrigði barna og ungmenna
- bæta aðgengi kennara að sérfræðiaðstoð er varðandi einstök mál barna og ungmenna
Skólar Ísafjarðarbæjar
Við búum í vaxandi samfélagi þar sem börn, kennarar og foreldrar gera auknar kröfur um gæði náms, gott starfsumhverfi og góða þjónustu. Við lítum svo á að góð þjónusta, fallegt umhverfi og framúrskarandi skólar geri Ísafjarðarbæ að vænlegum búsetukosti. Við ætlum að:
- Bjóða 12 mánaða börnum leikskólavist
- Byggja við leikskólann Eyrarskjól
- Horfa næst til stækkunar leikskólans Sólborgar
- Tryggja fullnægjandi húsnæði fyrir dægradvöl
- Viðhalda og fegra skólalóðir sveitarfélagsins, svo þær bjóði upp á skapandi og ögrandi leikumhverfi
- Viðhalda skólahúsnæði sveitarfélagsins svo sómi sé að
Við ætlum að byggja upp til framtíðar.
Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs
Nanný Arna Guðmunsdóttir, forseti bæjarstjórnar