Á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða má lesa um Vísindaport vikunnar sem að þessu sinni er flutt af Kévin Dubois, meistaranema í verkfræði við SeaTech Toulon í Frakklandi. Hann mun kynna verkefni sem hann vinnur nú að hér á Ísafirði. Í erindi sínu mun Kévin fjalla um sjávarlíkön (e. coastal modelling) og möguleika á að nota þau til að herma sjávarstrauma, öldur og strandrof í samspili sjávarfalla og veðurs. Með þeim má fá innsýn í viðburði sem hafa þýðingu fyrir þætti er varða forsendur fyrir hönnun mannvirkja, skipulag strandbyggðar og afdrif mengunar sem fellur til sjávar eða berst annarstaðar frá af hafi. Ennfremur býður líkanið upp á möguleika á að skoða þætti er varða vaxtarskilyrði, þörungablóma og ísmyndun við tiltekið veðurlag.
Verkefni Kévins er hluti af starfsnámi hans í meistaranámi í verkfræði við SeaTech Toulon þar sem hann sérhæfir sig í sjávarverkfræði. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Björns Erlingssonar, hafeðlisfræðings og er það hluti af uppbyggingu rannsóknatækja til að rannsaka og herma ferli sem eru ráðandi við aðstæður við strönd og í hafi nærri sjávarbyggðum. Líkanið hefur verið í þróun við háskólann í Delft í Hollandi um langt árabil og við keyrslu þess eru nýtt gögn úr hnattrænum veður- og haflíkönum.
Um nokkurt árabil hefur staðið yfir við Háskólasetrið farsælt samstarf um starfsþjálfun verkfræðinema í hafeðlisfræði á vegum SeaTech skólans, sem er deild innan Háskólans í Toulon í Frakklandi. Nemar þaðan hafa fengist við fjölbreytt verkefni á sviði hafeðlisfræði, svo sem greiningu sjávarfalla í sjávarhæðarmælingum, áhrifa langtíma veðurfarsbreytinga á tíðni sjávarflóða, brotahreyfinga í hafísþekju Pólhafsins og athugana á blöndun og dreifingu mismunandi sjógerða úr hita og seltumælingum í hafi svo nokkur dæmi séu tekin.
Kévin Dubois fæddist 1995 í Cholet, sem er bær í grennd við borgina Nantes við vesturströnd Frakklands. Kévin kom fyrst til Íslands fyrir tveimur árum og dvaldi þá á Ísafirði sumarlangt sem starfsnemi og hefur komið hingað í framhaldsverkefni sem beinist að því að byggja upp aðstöðu til að styðja við mótun skipulags á strandsvæðum varðandi samgöngumannvirki, útlosun skólps og aðstæður fyrir fiskeldi við ströndina.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13:00. Allir velkomnir. Erindið verður á ensku.
Sæbjörg