Á vef Vesturverks er sagt frá skemmtilegu verkefni sem nemendur í inngangi að náttúruvísindum í Menntaskólanum á Ísafirði unnu í samstarfi við FAB LAB. Verkefnið fjallaði um endurnýjanlegar orkuauðlindir á Vestfjörðum, en lokaafurðir þess eru til sýnis á göngum Menntaskólans. Meðal þess sem tekið var fyrir var Hvalárvirkjun, en einnig vindorka og virkjun sjávarfalla. Eins og segir á síðunni þá var: „Markmið verkefnisins að auka skilning nemenda á félagsvísindabraut á orku, orkueiningum og mismunandi orkulindum á jörðinni og efla þekkingu þeirra á endurnýjanlegri orku á Vestfjörðum. Með því að vinna í hópum að framsetningu og sköpun öðluðustu nemendur meiri og dýpri skilning á námsefninu. Skemmtilegt er að nemendurnir nýta sér einmitt rafmagn við framsetningu á orkukostunum innan fjórðungsins.”
Ragnheiður Fossdal, líffræðingur, stýrði nemendum sem unnu í fimm hópum. Starfið fólst í því að afla þekkingar og setja hana fram í kynningarmöppum og á veggspjöldum. Ungmennin smíðuðu svo orkukort í FAB LAB, með dyggri hjálp verknámskennara og einnig Páls Loftssonar, húsvarðar skólans. Á orkukortinu eru díóðuljós sem sýna stöðvarhús virkjana, bæði þau sem eru til staðar, þau sem áætlað er að setja upp og svo sköpun nemendanna sjálfra. Með díóðunum má meðal annars sjá fimm vindorkuver, og eina sjávarfallavirkjun og eina vatnaflsvirkjun, svo það er greinilegt að gestir og gangandi geta fræðst mikið af því að skoða þetta frábæra verkefni.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com