Það er greinilegt að fólkið hér fyrir vestan vill halda Aldrei fór ég suður

Hljómsveitin 200.000 naglbítar.

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, var haldin í fimmtánda skipti um nýafstaðna páska, en mikill fjöldi fólks var á svæðinu. Í samtali við Kristján Frey Halldórsson, tónlistarmann og rokkstjóra hátíðarinnar, kemur fram að aðstandendur hátíðarinnar telji að metþátttaka hafi verið í ár. „Metið var slegið í fyrra, en við teljum að það hafi einnig gerst núna. Það er okkar tilfinning að það hafi enn fleiri mætt nú en í fyrra. Við bíðum enn eftir staðfestum tölum, en erum nokkuð viss í okkar sök.“

Veðrið á Vestfjörðum var með eindæmum gott þessa helgi, svo það hefur ekki spillt fyrir tónlistarþyrstum gestum svæðisins, sól á daginn, rokk á kvöldin. En BB leikur forvitni á að vita hvernig líðanin er eftir svona stóran viðburð hjá rokkstjóra Aldrei fór ég suður. „Auðvitað verður maður þreyttur, en það verður algjört aukaatriði. Það sem kemst helst að núna er ánægjan eftir vel heppnaða helgi og allt þetta flotta fólk sem leggur hönd á plóg til að hátíðin gangi sem best fyrir sig.“ Kristján segir að núna séu aðstandendur hátíðarinnar að ganga frá, enda sé slóð af hlutum sem þarf að koma til sín heima, sem lánaðir voru á hátíðina. „Mér líður svolítið eins og frasabók þessa stundina, þegar ég svara fólki hvernig hátíðin gekk. Það gekk svo vel að það er eiginlega lyginni líkast. Hópurinn sem stendur að baki hátíðinni er auðvitað orðin svo sjóaður. Þetta er samheldin hópur, þar sem allir vinna vel saman og hafa sitt hlutverk.“

Kristján bendir á að það sé merkilegt hvað allir eru tilbúnir að hjálpa. „Á hverju ári eru allir til í að aðstoða. Íbúar í þessu góða samfélagi eru svo viljugir, að ég þarf ekki að klára fyrstu setninguna í símtalinu áður en fólk svarar já. Hvort sem ég er að biðja um vörubíl eða mannskap til að búa um rúmin fyrir tónlistarfólkið. Það er greinilegt að fólk hér fyrir vestan vill hafa hátíðina.“

Þegar Kristján er inntur eftir því hvað standi upp úr eftir helgina, stendur ekki á svörum. „Það er eitt sem stendur algjörlega uppúr, en það er þegar ég ákvað að taka stöðuna á gæsluliðinu okkar á Aldrei. Við höfum verið með sama hópinn í að minnsta kosti tíu ár, en þetta eru foreldrar barna í Vestra, alveg hreint frábær hópur. En ég semsagt spurði hvort það væri búið að vera eitthvað vesen á hátíðinni, þá svarar einn: „Vesen…nei, það er ekkert vesen, við vorum bara aðeins að spá í dósaflokkuninni og talningunni á þeim eftir helgi.“ Ef þetta er stærsta vandamál Aldrei fór ég suður, þá segir það ansi margt.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA