Kosið verður til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 26. maí. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett saman glæsilegan lista af hæfileikaríku fólki á öllum aldri með ólíkan bakgrunn og reynslu. Ég er ákaflega stoltur af því að fá að leiða þennan lista. Allt er þetta fólk, sem vill láta gott af sér leiða og vill sjá Ísafjarðarbæ komast í fremstu röð sveitarfélaga í landinu. Við höfum kynnt að fáum við til þess fylgi, og náist um það samkomulag við aðra flokka í bæjarstjórn, þá sé ég reiðubúinn að gefa kost á mér sem bæjarstjóri á ný að kosningum loknum. Það er spennandi verkefni.
Bæjarstjórastarfið krefjandi og fjölbreytt
Á þeim árum sem ég starfaði sem bæjarstjóri, 2010-2014, kynntist ég starfinu vel og hafði mikla ánægju af enda krefjandi og fjölbreytt starf. Með þá reynslu í farteskinu, sem og af setu minni í minnihluta s.l. fjögur ár, mun ég leggja mikla áherslu á samstarf allra bæjarfulltrúa ásamt því að kalla eftir hugmyndum bæjarbúa og standa fyrir langtímahugsun og vönduðum vinnubrögðum í störfum fyrir bæinn. Ég hef verið spurður að því hvernig fari með þau störf sem ég sinni í dag verði ég valinn til bæjarstjórastarfans. Það þarf vart að taka það fram að starf bæjarstjóra er miklu meira en fullt starf og verkefnin raðast á alla tíma sólarhringsins, vikunnar og ársins. Ég myndi því aldrei sinna öðrum launuðum störfum meðfram bæjarstjórastarfinu.
Spennandi tímar framundan
Það eru sannarlega fjölmörg tækifæri í Ísafjarðarbæ og verkefnin framundan virkilega spennandi. Margt jákvætt hefur gerst á undanförnum árum. Mestu skiptir þar að gengið hefur betur í atvinnulífinu en áður og ný fyrirtæki eru að verða til með nýjum störfum. Enn fleiri eru í pípunum. Þar má nefna að gefið hefur verið út leyfi fyrir 4.000 tonna laxeldi í Dýrafirði og munu fyrstu fiskarnir verða settir í sjó í sumar. Innan þriggja ára má gera ráð fyrir að framleiðsla verði komin á fullt sem gæti þýtt um 4-5 milljarða veltu í þessum eina firði. Í því eru sannarlega tækifæri fólgin. Við þurfum að nýta þau til fulls og tryggja að sú óvissa og kyrrstaða sem er í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í dag verði rofin. Allir sem hafa kynnt sér þau mál eiga að vita að vel er hægt að hefja þar eldi án þess að taka of mikla áhættu með villta laxastofna eða umhverfið. Það er ólíðandi með öllu að þetta mál fái ekki hraðari og faglegri afgreiðslu hins opinbera en raun ber vitni.
Ófeimin við hagsmunagæslu
Eitt helsta verkefni okkar, sem bjóðum fram til bæjarstjórnar, er að tryggja að þessi tækifæri verði nýtt og hlúð verði jafnt að nýjum fyrirtækjum sem þeim sem eru rótgróin í bæjarfélaginu okkar og leggja grunn að þeirri velferð sem hér er. Við eigum ekki að vera feimin við hagsmunagæslu fyrir fyrirtækin okkar því hún er um leið hagsmunagæsla fyrir íbúana og samfélagið allt. Án atvinnu er ekkert samfélag. Þetta er stóra verkefnið sem bíður okkar og kosningarnar í vor eiga fyrst og síðast að snúast um það hverjum íbúarnir treysta best til að gæta þessara sameiginlegu hagsmuna okkar allra.
Daníel Jakobsson – oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.