Stórkostleg Fossavatnsganga

Myndir: Gunnar Þórðarson.

Það var stórkostleg stund að fylgjast með startinu í 50 km göngunni í morgun, þegar nærri 600 manns hófu keppni. Það var nánast óraunverulegt að sjá allan þennan fjölda leggja af stað, Seljalandsdalurinn baðaður sólkyni og skartaði sýnu fegursta og allar aðstæður á heimsmælikvarða. Blaðamaður fylltist stolti sem Ísfirðingur og þakklæti til allra þeirra sem hafa með skipulag og framkvæmd þessa móts að gera.

Hálftíma seinna hófu 170 keppendur í 25 km göngu keppni og var blaðamaður þar á meðal. Hjartað berst í brjóstinu meðan beðið er eftir startinu, sem var skothvellur í þetta sinnið. Svo er brunað af stað upp á heiði, færið eins og best verður á kosið, bæði fatt og rennsli.

Þrátt fyrir kappið er ekki hægt annað en að gefa sér tíma til að njóta útsýnisins þegar upp á heiðina er komið. Fegurð Skutulsfjarðar og kaupstaðarins á eyrinni er ólýsanleg. Lengra í austri blasir Djúpið við og snævi þakin Snæfjallaströndin. Þetta er einmitt það sem gerir Fossavatnsgönguna einstaka á heimsvísu, þar sem víðast hvar er keppt í slíkum stórmótum upp til fjalla þar sem tré og fjöll eru það eina sem skíðamaðurinn sér.

Klukkan 20 mínútur yfir 10 var startað í 12,5 km gönguna, þar sem 100 þátttakendur kepptu. Að lokinni keppni voru keppendur sammála um að allar aðstæður hafi verið fullkomnar, bæði það sem var á valdi æðri máttarvalda og eins skipuleggjanda og framkvæmdaraðila mótsins. Veðrið, færið, brautin og þjónusta við keppendur voru í einu orði sagt stórkostleg. Blaðamaður tók sérstaklega eftir því hversu mikil vinna hefur verið lögð í varanlegar merkingar á brautinni, ásamt upplýsingum til keppanda um vegalengdir. Úrslit Fossavatnsgöngu má sjá á heimasíðu Fossavatnsgöngunnar.

Keppendum er boðið í kaffi í Íþróttahúsinu að loknu móti og í kvöld verður fiskiveisla á sama stað.

Gunnar

 

 

DEILA