Á vef Rúv kemur fram að þrír stjórnendur, sem og einn sálfræðingur hafi sagt upp störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nýverið. Vondur starfsandi er sögð aðal ástæða uppsagnanna, en fram kemur í fréttinni að einnig skorti fjárveitingar til stofnunarinnar, sem valdi þungu andrúmslofti.
Forstjórinn, Kristín Albertsdóttir, sagði upp fyrir páska, sem og fjármálastjórinn, Erla Kristinsdóttir. Kristín hóf störf hjá stofnuninna í lok árs 2016, eftir að hafa starfað hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Erla hóf störf í október 2017. Báðar segja þær upp vegna óánægju í starfi. Mannauðstjórinn, Anna Gréta Ólafsdóttir, sem hóf störf 1. febrúar síðastliðinn, sagði upp af persónulegum ástæðum. Nýráðinn sálfræðingur stofnunarinnar sagði einnig upp vegna óánægju, eftir aðeins nokkra mánuði í starfi. Auk þeirra lét Þorsteinn Jóhannesson af störfum síðasta sumar, eftir 30 ár í starfi yfirlæknis Heilbrigðisstofnunarinnar, en hann hafði komist að samkomulagi við yfirstjórn.
Samkvæmt fráfarandi fjármálastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar, Erlu Kristinsdóttur, var bókhald stofnunarinnar í miklum ólestri þegar hún tók við síðastliðið haust. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að stofnunina hafi skort fjármagn mjög lengi, því sé andrúmsloftið mjög erfitt. Í frétt Rúv líkir hann ástandinu við árin eftir hrun.
Ekki náðist í Kristínu Albertsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, við vinnslu fréttarinnar.
Margrét Lilja
milla@bb.is