Spennandi tímar

Ég er sannfærður um að framundan séu mjög spennandi tímar í Ísafjarðarbæ. Með tilkomu Dýrafjarðargangna opnast gríðarlega spennandi möguleikar í ferðaþjónustu og ég er sannfærður um að laxeldið eigi eftir að stóraukast þótt mér finnist þessir hlutir svo sannarlega ganga allt of hægt.

Miklar framkvæmdir framundan

Framundan eru gríðarlega mikil uppbyggingarverkefni í Ísafjarðarbæ sem ég held að nokkuð víðtæk sátt sé orðin um. Flest þeirra voru komin í umræðu fyrir síðustu kosningar eða alveg í upphafi kjörtímabilsins en önnur hafa verið að koma inn eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Þar má t.d. nefna byggingu fjölnota Íþróttahúss, nýjan gervigrasvöll á Torfnesi, viðbyggingu við Eyrarskjól, framkvæmdir við Sundabakka, framtíðarhúsnæðismál líkamsræktarstöðvar, lagfæringar á gangstéttum og götum í öllum hverfum sveitarfélagsins og nýbyggingu við Byggðasafnið. Þessi verkefni hlaupa á hundruðum milljóna eða milljörðum og gríðarlega mikilvægt að vel verði að þeim staðið. Að sama skapi munu þau gjörbreyta bænum okkar og gera hann að enn betri búsetukosti í samkeppni við önnur sveitarfélög um íbúa. Ég er sannfærður um að við þurfum að kosta heilmiklu til svo okkar samkeppnisstaða í þessu samhengi verði ásættanleg.

Stóru málin þrjú

Þrjú risavaxin mál hafa að mínu mati gengið óskiljanlega hægt á síðustu árum. Er þar um að ræða framgang eldis í Djúpinu sem mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnuuppbyggingu í Ísafjarðarbæ en í því samhengi má þó ekki gleyma að búið er að gefa leyfi fyrir allt að 4.000 tonna eldi í Dýrafirði og Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út að endurskoðað áhættumat í fiskeldinu muni liggja fyrir í júní á þessu ári. Við það mun fiskeldi í Ísafjarðardjúpi vonandi hefjast fyrir alvöru. Löngu tímabærar framkvæmdir við Dýrafjarðargöng ganga mjög vel en auðvitað er staðan á endurbótum á Dynjandisheiði og veginum um Teigskóg óþolandi. Hvað varðar Hvalárvirkjun og bætt raforkuöryggi okkar þá ætla ég að leyfa mér að vera nokkuð bjartsýnn þótt svo sannarlega megi ekki slaka neitt á þrýstingi á stjórnvöld hvað það varðar.

Mikil aukning bæði tekna og skulda í sögulega lágri verðbólgu

Heildartekjur Ísafjarðarbæjar árið 2017 voru 4.600 milljónir en 3.500 milljónir árið 2014 og hafa því aukist gríðarlega. Er þar um að ræða auknar útsvarstekjur því laun hér hafa hækkað mikið eins og annars staðar á landinu, hækkun á fasteignagjöldum því fasteignamat hefur hækkað hér eins og annars staðar á landinu og svo mjög mikla hækkun á framlögum jöfnunarsjóðs því tekjur annarra sveitarfélaga og ríkisins hafa hækkað hlutfallslega enn meira en okkar, sem mér finnst reyndar verra. Að lokum hafa svo tekjur hafnarsjóðs aukist mikið vegna aukinna umsvifa sem er mjög ánægjulegt.

Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að þrátt fyrir þessa gríðarlegu aukningu í tekjum og að verðbólga hafi ekkert kjörtímabil frá því ég fæddist verið lægri þá hafa skuldir bæjarins aukist úr 5.800 milljónum 2014 og upp í 6.600 milljónir 2017 (fyrir utan aukninguna vegna lífeyrisskuldbindinga um síðustu áramót). Við erum s.s. búin að auka skuldirnar um 800 milljónir og allar stóru framkvæmdirnar eru ennþá eftir.

Kosningar um að láta verkin tala

Auðvitað skiptir margt fleira máli en að standa almennilega að rekstri bæjarins og auðvitað hefur ýmislegt verið prýðilega gert á þessu kjörtímabili. Þannig var Hlíðarvegurinn á Ísafirði svo sannarlega endurbyggður en það var hins vegar ekkert stærri framkvæmd en endurbygging Dalbrautar og Heiðarbrautar í Hnífsdal á síðasta kjörtímabili. Ef þú kjósandi góður vilt í alvöru að ráðist verði í þessi stóru og brýnu verkefni sem ég hef talið upp án þess að stórhækka skuldir bæjarins þá bið ég þig að hugleiða vel hvernig þú nýtir atkvæði þitt í vor. Það er líka svo sorglega algengt að stjórnmálamenn segist loks ætla að ráðast í stóru verkefnin þegar kjörtímabilið er á enda en er það trúverðugt? Er t.d. líklegt að núverandi meirihluti sé rétt að fara að ráðast í framkvæmdir við fjölnotahús núna korter í kosningar þegar ekki er einu sinni búið að ræða stofnun byggingarnefndar til að halda utan um verkið?

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Ísafjarðarbæ

DEILA