Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri vann skýrslu um samfélagsleg áhrif Hvalárvirkunar í Árneshreppi að beiðni Vesturverks ehf. á Ísafirði. Áhersla var lögð á að greina áhrif á rekstrartíma virkjunarinnar en einnig að hluta til á framkvæmdatímanum. Þá voru skoðuð möguleg áhrif á vinnumarkaðinn og atvinnuvegi, rekstur sveitarfélaga, innviði sveitarfélagsins, þjónustu og svo íbúaþróun og búsetu. Skýrsluna unnu Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur við RHA.
Í skýrslunni segir að Hvalárvirkjun hafi verið eina virkjunin á Vestfjörðum sem kom til mats í 2. áfanga rammaáætlunar. Samkvæmt mati verkefnisstjórnar um þennan áfanga lendir Hvalárvirkjun í 29. sæti af 52 út frá sjónarhorni nýtingar en í 39. sæti hvað verndun varðar. Í kjölfarið var virkjunin sett í nýtingarflokk.
Ef af virkjanaframkvæmdum verður, mun Hvalárvirkjun standa í 18 km fjarlægð frá Norðurfirði en frá Norðurfirði og yfir í Ingólfsfjörð liggur jeppafær sumarvegur. Þann veg þyrfti að endurbyggja á meðan byggingarframkvæmdir fara fram við virkjunina. Framkvæmdirnar krefjast einnig rafmagns og því þyrfti að tengja það við fjarskiptakerfið.
Við byrjun ársins 2017 voru skráðir íbúar Árneshrepps 46 talsins og í upphafi 2018 er talið að þeir séu um 40, og þar af dvelji um helmingur þeirra annarsstaðar yfir veturinn. Íbúarnir eru í eldra fallinu og til að mynda er aðeins 1 nemandi í Finnbogastaðaskóla núna.
Vegalengdir eru miklar og erfiðar í Árneshreppi og yfir veturinn er Strandavegur nr. 643, sem þangað liggur, lokaður. Strandavegur er í þjónustuflokki 4, sem er lægsta þjónustustigið og um hann gilda þær reglur að vegurinn er mokaður tvo daga í viku frá 20. mars til 1. nóvember. Heimilt er að moka veginn einu sinni í viku á kostnað Vegagerðarinnar fram til 5. janúar en eftir það að beiðni sveitarfélagsins og gegn helmingagreiðslu frá þeim. Flugfélagið Ernir flýgur þó tvisvar í viku á Gjögur yfir veturinn og einu sinni í viku á sumrin.
Árneshreppur er hluti af verkefninu Brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Á fundi sem haldinn var með íbúunum kom fram að helstu framfaramál að þeirra mati tengdust innviðum hreppsins. Atvinnulíf á staðnum er fremur einhæft, en sauðfjárrækt hefur verið helsta atvinnugreinin ásamt ferðaþjónustu og svo er dálítil útgerð þar á sumrin. Hluti þeirra sem stundar veiðar frá Árneshreppi eru þó strandveiðimenn sem búa almennt annarsstaðar og greiða því ekki útsvar til staðarins. Í Norðurfirði hefur samt verið þjónusta við smábáta með eldsneyti og ís.
Töluverður fjöldi ferðamanna sækir Árneshreppinn heim og hefur Krossneslaug til að mynda mikið aðdráttarafl. Ýmis önnur þjónusta tekur svo mið af þörfum ferðamanna, en í hreppnum má finna veitingasölu og ýmis fyrirtæki bjóða upp á gistingu, auk þess sem Minja- og handverkshúsið Kört er í Trékyllisvík og hótel og veitingasala Í Djúpavík, svo fátt eitt sé nefnt. Þó nokkrir ferðaþjónustuaðilar eiga lögheimili annarsstaðar og dvelja einungis á Ströndum yfir sumartímann. Þegar unnin var stöðugreining fyrir verkefnið Brothættar byggðir kom í ljós að heimafólk hefði væntingar til aukinnar ferðaþjónustu og afþreyingar. Einnig var talið mikilvægt að bæta netsamband og samgönguöryggi.
Atvinnuöryggi heimafólks í Árneshreppi mun ekki aukast að ráði að meðan á framkvæmdum Hvalárvirkjunar stendur. Gert er ráð fyrir að flestir starfsmenn komi annarstaðar að og verði bæði innlendir og erlendir. Einnig er hægt að áætla að aðföng og sérfræðiþjónusta komi annarsstaðar frá, en þó er gert ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir þjónustu á framkvæmdatíma. Það er þá þjónusta sem gagnast einnig ferðafólki, svo sem veitingasala og afþreying svo eitthvað sé nefnt. Þá er líka gert ráð fyrir aukinni sókn í verslunina í Norðurfirði. Þegar virkjunin verður komin í fullan rekstur er ekki hægt að gera ráð fyrir miklum breytingum fyrir atvinnulífið, vegna þess að hún skapar ekki bein störf. En það má gera ráð fyrir að með tilkomu virkjunarinnar aukist rafmagnsöryggi og hreppurinn kemst í ljósleiðarasamband.
Í skýrslunni segir einnig: „Fyrir ferðaþjónustu geta áhrif vegna virkjunarinnar verið mismunandi eftir því um hvaða hóp ferðamanna er að ræða. Flestir ferðamenn sem koma til norðanverðra Stranda sækja svæðið heim vegna óspilltrar náttúru, fámennisins og þeirrar sérstöku ferðaupplifunar sem þessi atriði ná að skapa. Fyrir þennan hóp mun virkjunin spilla ferðaupplifuninni, sérstaklega á framkvæmdatíma en einnig á rekstrartíma. Hvort ferðamönnum muni fækka vegna þessa er ekki gott að áætla. Samsetning ferðamannahópsins kann að breytast. Fyrir einhverja ferðamenn má búast við að tilkoma virkjunarinnar getið skapað önnur tækifæri, s.s. vegna jeppaferða síðsumars um nýja leið um Ófeigsfjarðarheiði og yfir í Ísafjarðardjúp en framkvæmdaaðili áformar að gera línuveg meðfram jarðstreng á þessari leið. Ef reist verður gestastofa við Hvalá mun hún auka þjónustugetu við ferðamenn í Ófeigsfirði og skapa störf eða hluta úr starfi.“
Áætlað er að um 350 starfsmenn komi að framkvæmdum við Hvalárvirkjun og stór hluti þeirra verði jafnvel erlendur. Í öðrum líkum framkvæmdum hafa verkamenn oft verið með skráð lögheimili í vinnubúðunum en í skýrslunni er tekið fram að slíkt gerist ekki sjálfkrafa og það er verkefni sem stéttarfélag og sveitarfélag þurfa að vinna í, svo sveitarfélagið fái útsvarstekjur. Ef erlendur verkamaður er skemur en 183 daga á Íslandi er ekki þörf fyrir að skrá hann inn í landið og Árneshreppur mun ekki fá útsvarstekjur frá íslenskum verkamönnum sem eiga lögheimili annarsstaðar. Þegar virkjunin er komin í gagnið mun Árneshreppur þó fá fasteignagjöld af fasteignum sem tilheyra virkjuninni en fasteignamat núverandi virkjana í landinu er nokkuð ruglingslegt.
Þegar kemur að kaflanum um innviði Árneshrepps í þessari skýrslu segir orðrétt: „Innviðauppbygging af ýmsu tagi tengist byggingu Hvalárvirkjunar og nýtist samfélaginu eftir atvikum eftir að framkvæmdum lýkur. Ekki er að öllu leyti ljóst enn hvaða leið verður farin í tengslum við suma af þessum innviðum s.s. varðandi raforku og fjarskipti á framkvæmdatíma. Dreifikerfi raforku í Árneshreppi byggir á línu/streng úr Steingrímsfirði yfir Trékyllisheiði og ofan í Reykjarfjörð við Djúpuvík. Á meirihluta leiðarinnar er 11kV lína en niður í Reykjarfjörð er strengur sem gerður er fyrir þrjá fasa 19kV en er nú rekinn á einum fasa 11kV. Innan Árneshrepps eru víða komnir áþekkir strengir svo sem í Trékyllisvík og þaðan til Gjögurs. Dreifikerfið á svæðinu er í eigu Orkubús Vestfjarða. Til þess að hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni innan Árneshrepps þyrfti að leggja nýjan streng yfir meirihluta Trékyllisheiðar, nýjan streng frá Djúpuvík í Reykjarfirði yfir í Trékyllisvík, nýjan streng úr Melavík til Norðurfjarðar og eftir atvikum áfram til bæjanna Munaðarness og Fells. Orkubú Vestfjarða áformar að gera þetta en ekki er ljóst hvenær það verður gert en þó er ljóst að það verður ekki gert næstu misseri (Halldór Magnússon, 2018). Ef raunsæis er gætt verður að gera ráð fyrir því að ef byggð í Árneshreppi gefur enn frekar eftir á næstu árum muni það að öðru óbreyttu seinka endurnýjun dreifikerfisins. Líklegt er að endurnýjun dreifikerfa þar sem notendur eru fleiri verði látin ganga fyrir. Þetta er þó ekki hægt að fullyrða.“
Þar segir ennfremur að ef Hvalá verður virkjuð þá þarf rafmagn á virkjunarstað á framkvæmdatíma. Til þess að útvega það séu nokkrar leiðir, svo sem að styrkja núverandi kerfi og þá yrði lagður nýr strengur yfir í Ófeigsfjörð. Aðrar leiðir séu færar en þær eru lengri. Og svo segir: „Ef rafmagn á virkjunarstað yrði fengið með þessum hætti myndi það hafa mestu samfélagslegu áhrifin til góðs fyrir Árneshrepp. Það gæti flýtt verulega fyrir þriggja fasa rafmagni í hreppnum ef virkjunin verður gerð fljótlega… Hvalárvirkjun í rekstri gefur kost á meira raforkuöryggi í Árneshreppi. Hvernig aðgangur verður að rafmagni á framkvæmdatíma hefur hins vegar mikil áhrif á þetta atriði. Ef núverandi kerfi verður endurnýjað og framlengt alla leið í Ófeigsfjörð mun virkjunin geta selt smá hluta af orku sinni inn á þetta kerfi þegar hún er komin í rekstur þannig að Árneshreppur fái raforku úr tveimur áttum. Úr norðri (frá virkjuninni) og úr suðri (af núverandi dreifikerfi raforku). Það þýðir að hreppurinn yrði ekki rafmagnslaus þótt annar strengurinn færi í sundur eða dytti út af öðrum ástæðum. Slíkt raforkuöryggi er kallað N-1. Raunar myndi raforkuöryggi aukast víðar á Ströndum og í Ísafjarðardjúpi með þessu fyrirkomulagi. Í 5. gr. raforkulaga nr. 65/2003 segir að leyfisskyldar virkjanir stærri en 10 MW skuli tengjast flutningskerfinu beint. Röksemdirnar fyrir því munu vera þær að allir framleiðendur taki þátt í kostnaði við kerfið.“
Einnig er tekið fram að bæta þurfi GSM samband vegna framkvæmdanna og að lagður yrði ljósleiðari samhliða rafmagnsdreifikerfinu. Orkubú Vestfjarða áformar að endurnýja dreifikerfi raforku til Árneshrepps með nýjum þriggja fasa jarðstrengjum, hvort sem virkjað verður eða ekki og ljósleiðararör yrðu eflaust lögð í leiðinni, þó tilkoma Hvalárvirkjunar myndi hugsanlega flýta þeim framkvæmdum.
Auknar framkvæmdir kalla á betri samgöngur. Til að geta gert Hvalárvirkjun þyrfi að leggja nýjan veg frá Melavík, yfir í Ingólfsfjörð og þaðan í Ófeigsfjörð. Einnig kæmu vegir frá ósi Hvalár og upp að stíflunum sem rísa myndu á Ófeigsfjarðarheiði. „Með nýjum vegum vegna virkjunarinnar yrði væntanlega fólksbílafært alla leið upp á Ófeigsfjarðarheiði. Ekki yrðu nema sjö kílómetrar í jaðar Drangajökuls frá veginum upp að Eyvindarfjarðarvatni. Á framkvæmdatíma er líklegt að virkjunaraðili héldi vegi frá Gjögri að virkjunarsvæðinu opnum allt árið. Annars væri ekki aðgangur að flugi um Gjögur, höfninni í Norðurfirði og síðan Strandavegi suður Strandir þegar hann væri opinn. Hins vegar er ekki líklegt að þessum vegi yrði haldið opnum á veturna á rekstrartíma.“
Í skýrslunni segir enn fremur: „Þegar þetta er skrifað er áformað að tenging Hvalárvirkjunar við flutningskerfi raforku verði með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði. Virkjunaraðili hefur lýst áhuga á að vegur/vegslóði sem fylgja mun strengnum verði opinn almenningi. Það þýðir að á sumrin yrði jeppafært úr Ófeigsfirði, yfir Ófeigsfjarðarheiði og niður í Djúp og má gera ráð fyrir að veginum muni svipa til vegarins um Þorskafjarðarheiði. Þar með yrði komin ný hringleið sem hægt væri að fara á jeppum að sumri. Frá Norðurfirði til Ísafjarðar yrði þessi leið 50-60 km styttri en núverandi vegur. Á veturna yrði þessi leið lokuð.
Hvalárvirkjun mun ekki sjálfkrafa hafa áhrif til uppbyggingar á Strandavegi milli Bjarnarfjarðar og Árneshrepps. Ljóst er því að Hvalárvirkjun mun ekki verða til þess að svara kröfum sveitarfélagsins um betra vegasamband nema að mjög takmörkuðu leyti. Um veginn munu samt fara töluverðir flutningar á framkvæmdatímanum. Bæði vegna aðfanga og ferða starfsmanna. Viðbúið er að Vegagerðin þurfi að leggja í meira viðhald á veginum á þessu tímabili og keyra í hann efni þar sem hann gefur eftir. Það kann að þýða að vegurinn verði betri… Magnflutningar á þungri vöru svo sem byggingarefni munu að hluta fara fram á sjó með uppskipun í Norðurfirði. Höfnin þar er djúp og góð en bæta þarf bryggjusvæði fyrir flutningana, framkvæmdaaðili hefur boðist til að standa straum af því. Höfnin mun væntanlega fá aukin hafnargjöld af þessum umsvifum á meða þau vara.“
Vesturverk hefur boðið sveitarstjórn Árneshrepps að koma að ýmissi uppbyggingu í hreppnum, svo sem með því að tengja þriggja fasa rafmagn frá Hvalárvirkjun í Norðurfjörð og ljósleiðara meðfram rafstreng. Koma að hitaveitu frá Krossnesi í Norðurfjörð, laga bryggjusvæði í Norðurfirði, endurnýja klæðningu á skólahúsi í Trékyllisvík, setja upp áningarstaði fyrir ferðfólk og gera gestastofu við Hvalá. Sumir hafa verið tortryggnir vegna þessara loforða frá helsta hagsmunaaðila verkefnisins. Þetta er þó ekki óalgengt erlendis samkvæmt skýrsluhöfundum.
Höfundarnir benda á að framkvæmdir af þessu tagi geti haft mikil áhrif á samfélagið sem kemur að þeim. Þeir skrifa: „Algengt er að væntingar skapist um tiltekin áhrif vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þá getur skapast óvissa og erfiðar deilur milli þeirra sem eru fylgjandi og andvígir framkvæmdum og skaðað samfélagið… Það sem veldur áhyggjum í tilviki Hvalárvirkjunar, í tengslum við andann í samfélaginu, eru þær deilur sem hafa átt sér stað um verkefnið, einkum síðasta árið. Þessar deilur eiga sér ekki síst stað meðal aðila sem standa utan samfélagsins á norðanverðum Ströndum, en sem láta sig svæðið, einkum náttúru þess, sig miklu varða. Þá eru skiptar skoðanir á málinu innan hreppsins sem getur spillt samskiptum fólks í öðrum og óskildum málum. Þetta er afleit staða fyrir jafn fámennt samfélag og hér um ræðir, sem háir varnarbaráttu og þarf á samstöðu að halda en má tæplega við slíkum flokkadráttum. Verkefnið um Brothættar byggðir gæti verið hjálplegt í þessu sambandi en þar hefur markvisst verið sneitt hjá málum sem tengjast virkjunaráformum.“
Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com