Skálmöld á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Það eru vondar fréttir sem við íbúar á Vestfjörðum höfum fengið undanfarin misseri af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki bæta nýjustu fréttir úr og fólk er skilið eftir í fullkominni óvissu um þessa mikilvægustu stofnun samfélagsins. Samkvæmt fjölmiðlum hafa lykilsstjórnendur sagt starfi sínu lausu, forstjórinn, fjármálastjórinn, mannauðstjórinn og sálfræðingurinn. Í fréttum RÚV er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar, að ástæður uppsagna sé langvarandi óstjórn og mjög slæmur starfsandi á vinnustaðnum.

Það hefur ekki farið fram hjá bæjarbúum að hálfgerð skálmöld hefur ríkt á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði um nokkurt skeið. Því voru bundnar miklar vonir við ráðningu nýs forstjóra og væntingar um að hún gæti lægt öldur og komið böndum á ástandið. Ein aðgerðin var sú að samkomulag náðist við fyrrverandi yfirlækni um að hann hætti störfum. Í stuttu máli varð engin breyting á samskiptavandamálum starfsmanna við brotthvarf fyrrverandi yfirlæknis, eins og nýjustu fréttir sýna vel. Ráðaleysið með rekstur heilbrigðisstofnunarinnar virðist algjört og við íbúar svæðisins skildir eftir með óvissu um heilbrigðisþjónustu. Við hljótum að spyrja okkur að því hvað í ósköpunum sé að gerast? Hvert er vandamálið á vinnustaðnum og hvað er til ráða til að koma hlutum á réttan kjöl? Í ofanálag virðist bókhald stofnunarinnar hafa verið í miklum ólestri um langan tíma, svo miklum að nýráðinn fjármálastjóri lét hafa eftir sér í fréttum RÚV að ekki væru viðhafðar viðurkenndar reikningsskilavenjur. Það var ein af ástæðum þess að hún vildi víkja úr starfi.

Eitt vandamálið með stofnunina er að engin stjórn er yfir henni og hefur verið þannig til langs tíma. Aðeins embættismenn í Reykjavík, sem eru svo langt frá vandanum að þeir hafa hvorki áhuga né getu til að takast á við hann. Enginn virðist vera til svara um hvað sé eiginlega að gerast og enginn virðist vera ábyrgur. Þetta er gott dæmi um ábyrgð sen flýtur og enginn kallaður til að bera hana. Ekkert fyrirtæki gæti gengið með slíku stjórnskipulagi, þar sem forstjóri fær hvorki stuðning né aðhald. Það þarf að setja stjórn yfir stofnunina sem lætur sig varða um hagsmuni íbúa og starfsfólks og getur beitt sér til lausnar vandanum.

Við íbúar hljótum að krefjast þess að óvissu sé eytt með heilbrigðisþjónustu fyrir Vestfirði. Finna þarf vandamálið sem augljóslega er á þessum vinnustað, og fjarlægja það. Það er morgunljóst að meðan allir kraftar starfsmanna fara í átök verður lítið um uppbyggileg mál til framtíðar. Læknar eru ráðnir sem verktakar til skamms tíma í einu og ná ekki að aðlagast samfélaginu. Ekki er hægt að búast við framboði lækna til starfa, meðan sögusagnir af innanhúsátökum og innantökum fara sem eldur um sinu.

Annað mál er svo hversu litlar upplýsingar eru um málið, sem ýtir undir sögusagnir sem enn eykur óvissuna.

Stakkur

DEILA