Sér um verslunina í Árneshreppi

Ólafur Valsson.

Ólafur Valsson tók í haust við rekstri verslunar í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum, þegar Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík hætti þar rekstri, og sér nú um búðina. Hann var kátur í bragði þegar blaðamaður BB.is sló á þráðinn til að forvitnast um manninn og þetta verkefni að sjá um verslunina. Ólafur er dýralæknir að mennt og starfaði lengi við það, hér og þar um landið. Frá árinu 2003 hefur hann að mestu búið erlendis, til dæmis í Brussel og Afríku og síðustu tvö árin í Rúanda. Síðasta sumar kom hann heim til Íslands og flutti svo í Árneshreppinn síðasta haust eftir að hafa séð auglýst eftir einhverjum til að reka verslunina: „Mér fannst þetta spennandi verkefni. Ef þessi verslun er ekki hérna leggst heilsársbyggð af. Ég er búinn að vera hérna síðan í haust og hef haldið úti þessari verslun fyrir fólkið sem býr hérna, sem eru nú ekki margir á veturna,“ segir Ólafur.

Það er ljóst að verslunin í Norðurfirði er gríðarlega mikilvægt fyrir Árneshrepp, en ef hún myndi leggjast af eru yfir 100 km í næstu verslun. Flogið er með vörurnar í búðina einu sinni í viku yfir vetrartímann, en þær koma með bíl yfir sumarið: „Það gengur á ýmsu með að fá vörur á veturna. Hluta vetrar er vegurinn bara lokaður og þá er bara flogið. Flugfélagið Ernir flýgur með vörurnar og þau hafa staðið sig rosalega vel. Þetta er auðvitað öðruvísi,“ segir Ólafur. Núna í vikunni, þann 17. apríl, féll flug Ernis niður vegna veðurs. Það hitti þó svo vel á að Ólafur var sjálfur í bænum og gat flutt vörurnar norður í Árneshrepp með bíl. Það styttist óðfluga í sumarið og þá verður líklega nóg um að vera: „Það koma fleiri sem dvelja yfir sumartímann og svo er auðvitað dáldið af ferðamönnum sem koma. Þeir sækja í Krossneslaugina og svo er mikið af fólki sem er að ganga um þetta svæði,“ segir Ólafur hress í bragði.

Ólafur var ekki alveg ókunnugur í Árneshreppi fyrir þetta ævintýri, en hann vann þar í kringum 1991-92, þegar það var sláturhús í Norðurfirði, við eftirlit á haustin. Auk þess var langafi hans með verslunarrekstur í Kúvíkum um aldamótin 1900. Ólafi líkar vel í Árneshreppi: „Þetta er fallegt svæði og það er áhugavert að koma inn í svona samfélag. Það er gaman að því, gaman að kynnast þessu góða fólki sem býr hér,“ segir Ólafur að lokum.

Dagrún Ósk

DEILA