Miðvikudaginn 25. apríl bauð Safnaráð til fagnaðar í Listasafni Íslands í Reykjavík. Tilefnið var aðalúthlutun safnasjóðs fyrir árið 2018 og fulltrúar þeirra safna sem fengu fimm hæstu styrkina mættu til að kynna verkefni safna sinna. Meðal þeirra var fulltrúi frá Byggðasafni Vestfjarða sem kynnti framhald á verkefninu „Ég var aldrei barn.“ Verkefnið hlaut tveggja milljóna króna styrk en að auki fékk safnið 500 þúsund krónur til að vinna að verkefninu: „Frá hugmynd í hlut,“ í smiðjunni á Þingeyri, 750 þúsund krónur fyrir „Félagstíðindi við Djúp“ sem er útgáfa fyrir grunnsýningu safnsins, 1500 þúsund krónur fyrir sýninguna „Munir og mynd“ og loks 750 þúsund króna rekstrarstyrk. Önnur söfn og setur á Vestfjörðum sem hlutu styrki voru Minjasafn Egils Ólafssonar, sem fékk 400 þúsund krónur fyrir sýninguna „Tálknaféð, húsdýr eða villt?“, Sauðfjársetur á Ströndum, sem fékk 850 þúsund krónur fyrir Náttúrubarnaskólann og svo eina milljón króna fyrir verkefnið: „Strandir 2018.“
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com