Ríkharð Bjarni Snorrason Íslandsmeistari í bekkpressu

Ríkharð fyrir miðju og Helgi til hægri.

Óhætt er að tala um góðan árangur Vestfirðinga á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór dagana 17. og 18. mars, í húsakynnum World Class í Kringlunni, Reykjavík. Tveir keppendur voru frá Kraftlyftingadeild UMFB, Helgi Pálsson og Ríkharð Bjarni Snorrason.

Á fyrri degi mótsins var keppt í bekkpressu og voru Helgi og Ríkharð Bjarni báðir í -120 kg flokki. Ríkharð gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í flokknum með 190 kg lyftu. Helgi varð í þriðja sæti, en hann lyfti 162,5 kg. Bolungarvík varð því í öðru sæti stigakeppninnar þann daginn. Seinni keppnisdaginn var keppt í fullu móti, en Helgi varð í öðru sæti og lyfti 200 kg í hnébeygju, 160 kg í bekkpressu og 225 kg í réttstöðulyftu.

BB.is hafði samband við Ríkharð, sem sagðist mjög sáttur með árangurinn. „Mótið sem um ræðir var í klassískum kraftlyftingum, en það þýðir að enginn búnaður er leyfður. Keppendur voru um 60 talsins og ég er persónulega mjög sáttur við árangurinn.“ Þetta var fyrsta mót Ríkharðs með UMFB, en hann segist bara vera rétt að byrja. „Ég tel mig eiga mikið inni. Ég er einnig ánægður fyrir hönd Helga sem bætti sinn besta árangur. Það er uppgangur í kraftlyftingum í Bolungarvík og hefur búnaðurinn sem keyptur var inn eftir áramót gríðarlega mikið að segja.“ Ríkharð talar um að í Musterinu í Bolungarvík séu núna toppaðstæður til kraftlyftinga, en iðkendur geta núna æft við sömu aðstæður og í keppnum. Ætli Musterið eigi því ekki hlutdeild í þessum glæsilega árangri.

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

DEILA