Páskarnir eru öðru fremur táknmynd píslar, vonar, upprisu og sigurs.
Hvort sem einn maður játar kristinn sið, tekur hann alvarlega eða brúkar hann í vandræðum, trúir öðru eða alls engu, er saga páskanna saga vonar og endurfæðingar í mannheimum. Saga sem hefur verið sögð margoft og endursögð í tákna – og frásagnaheimi listasögunnar. Þetta síendurtekna tilbrigði listasögunnar, um vonlegt upphaf, erfiðleika og písl, von og upprisu, nýtt líf og sigur, á sér móðursögu í örlögum Jesús frá Nasaret, fæddur af Maríu Mey, píndur, krossfestur og upprisinn! Sigraði. Hvort sem við trúum eða ekki, höfum við vel flest horft á Shawshank redemption, grátið af sorg og gleði yfir örlögum Andy Dufresne og það sem allra mikilvægast er, fundið eigin sögu og örlög, í aðstæðum listaverksins. Við höfum öll skriðið okkar eigið skítarör og fundið birtuna við endann. Sigurinn.
Helgihald íslensku páskanna hefur breyst í grundvallaratriðum á örskömmum tíma. Ritari man þá tíð að páskarnir voru því sem næst kom tímabundnu þunglyndi. Ekki skapaður hlutur að gera eða fást við. Ekki möguleiki til að fá fjölskylduna í skapandi ferðalag, sjónvarpið í brandaraföstu, lambalærið þurrt og skíðaferðir ekki ræddar upphátt við nokkurn mann. Á örskömmum tíma hefur orðið eðlisbreyting á þessu hegðunarmynstri. Páskarnir er orðnir að einni mestu og bestu fjölskylduhelgi ársins. Það sem áður var dauft raul, hefur sprungið út í gleðilegan himnakór. Það sem áður var maraþon í veggfóðurstöru, er orðið að gjörningahelgi útivistar, tónlistar, matar og gleði. Við lofum lífið um páskana.
Það er ekki hægt að lofa þessa þróun, án þess að minnast á Ísafjörð, sveitarfélagið sem færði íslensku páskunum sitt varnarvígi, með rokkhátíðar himnakór. Það sem áður var dauft raul, hefur sprungið út í gleðilegan himnakór. Kröftugan, rokkaðan, ögrandi, skapandi og árlega endurfæddan rokkhátíðar himnakór. Aldrei fór ég suður, Skíðavikan, og um leið öll sú skapandi athafnagleði sem Ísafjarðarbær hefur upp á að bjóða, hafa öðrum öflum fremur, verið örlagavaldur í þessari þróun. Einhver gæti sagt megin ástæðan, annar myndi segja að það væri djúpt í árinni tekið. Hvort heldur er Ísafjarðarbær varnarvígi íslenskra páska. Rétt eins og Vestmannaeyjar heldur þjóðhátíð, eru páskar á Ísafirði.
Vestfirðir hafa gengið í gegnum erfiða tíma liðna áratugi. Tölfræði er ágætis verkfæri til að greina stöðu og aðstoða menn til lausna og úrbóta. En tölfræði er siðlaus andleysingi, sem lifnar ekki við nema í handleiðslu siðar, sögu og sálar. Tölfræði um minnkandi hagvöxt og fólksfækkun verður ekki sönn, nema við setjum raunverulegt fólk í veröld talnanna. Fjölskyldur sem flosna upp og flytja burt, börnin okkar sem fara til að mennta sig, en eiga ekki atvinnumöguleika heima við, nágrannar og vinir sem hverfa á braut. Saga um menningu sem hverfur, tölfræðin er síðan einungis bókarkápan sem heldur utan um frásögnina. Að nota atvinnuleysis tölfræði á Vestfjörðum sem rök gegn atvinnuþróun, hér sé engin verkefnalaus, er tölfræði án sögu, siðar og sálar. Slíkur tölfræðihúsbóndi er fastur í ómennskri hagsmunabaráttu.
Í þessum erfiðleikum hafa Vestfirðingar haldið í vonina, aldrei gefið upp baráttuna og um leið haldið í þá skynsemi og sjálfsvirðingu sem hverjum er nauðsynleg þegar hann fetar sinn eigin Via Dolorosa. Vitnisburður um þessa sjálfsvirðingu er forysta fjórðungsins þegar kemur að umhverfismálum, hvort sem lítur að stóriðjuleysi eða silfurvottun Earth Check. Þegar kemur að umhverfisvernd leiða Vestfirðingar aðra landsfjórðunga, eru öðrum fyrirmynd í málaflokknum og ef framtíðin verður græn eins og Vestfirðir, verður hún skjólgóð eins og Grænahlíðin.
Gróska, leikandi líf og upprisu er að finna í spábolla Vestfjarða. Nýir atvinnuvegir, nýtt fólk, virðingar og verndarsamband við menn og náttúru er það sem framtíðin geymir. Það liggur fyrir Vestfjörðum að lifa og eflast. Rísa upp.
Hann er upprisinn! – þeir eru upprisnir!
Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps / formaður Vestfjarðastofu