Ný og glæsileg lögreglubifreið hefur sést aka um götur Ísafjarðar og nágrennis síðustu daga. Um er að ræða nýja bifreið frá embætti Ríkislögreglustjóra, sem er, eins og aðrar merktar lögreglubifreiðar, í eigu embættis ríkislögreglustjóra og leigð af því embætti.
Í samtali við Hlyn Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjón, kemur fram að um sé að ræða Volvo V90CC 4×4, bifreiðar sem eru sérframleiddar fyrir lögreglu. „Þrjú önnur embætti eru að taka við nákvæmlega eins bifreiðum. Þetta eru mun öflugari bílar en áður hafa verið í notkun hjá íslensku lögreglunni. Þær eiga að vera betur til þess fallnar að sinna þeim þörfum sem þeim er ætlað. Vélin er 238 hestöfl, hemla- og fjöðrunarbúnaður er sérstyrktur ásamt tvöföldu rafkerfi. Öryggisbúnaðurinn er mikill og góður.“ Samkvæmt Hlyni er auk þess allur lögreglubúnaður bílanna nýr, radartæki, upptökubúnaður og fjarskiptabúnaður. „Bifreiðarnar eru með nýjum merkingum“, heldur Hlynur áfram, „þær eiga að auka öryggi lögreglumanna til muna.“
Hlynur bendi á að nýja bifreiðin verði gerð út frá lögreglustöðinni á Ísafirði og muni taka við hlutverki Skoda Scout 4×4 bifreiðarinnar, sem var ekin rúmlega 300.000 km.
Margrét Lilja
milla@bb.is