Landssamband veiðifélaga sendi frá sér fréttatilkynningu nú í morgun þess efnis að félagið hefði krafið Skipulagsstofnun um breytta málsmeðferð og afhendingu gagna vegna álits stofnunarinnar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi, sem gefið var út 3. apríl síðastliðinn.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að samkvæmt lögum skuli álit Skipulagsstofnunnar kynnt umsagnaraðilum við útgáfu þess. Landssamband veiðifélaga telur álitið eigi að standa og að sambandið eigi rétt á afhendingu þess. Einnig kemur fram að svo virðist sem öðrum umsagnaraðilum hafi verið kynnt álitið, meðal annars bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Gísla Halldóri Halldórssyni, sem var einn umsagnaraðila. Birti hann á Facebook síðu sinni eftirfarandi úrdrátt: „Í ljósi niðurstöðu áhættumats Hafrannsóknarstofnunar og álits Erfðanefndar landbúnaðarins telur Skipulagsstofnun að áhrif laxaeldis Háafells á villta laxastofna í Ísafjarðardjúpi séu líkleg til að verða verulega neikvæð og að ekki eigi, miðað við fyrirliggjandi forsendur, að leyfa eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi.“
„Landssamband veiðifélaga telur að með því að draga svo afgerandi álit sitt til baka sé verið að setja fordæmi sem valda muni mikilli óreiðu við málsmeðferð áætlana um umhverfismat. Opnað er fyrir þá leið að framkvæmdaaðili geti fengið útgefið álit dregið til baka að vild undir því yfirskini að hann óski eftir því að leggja fram viðbótarupplýsingar þótt ekki sé vitað hvers efnis þær eru.“
Margrét Lilja
milla@bb.is