Árshátíð Patreksskóla var haldin 5. apríl og skólastjórinn, Gústaf Gústafsson, var svo vinsamlegur að segja BB aðeins frá því hvernig hátíðin fór fram. „Árshátíðin tókst ágætlega,“ segir Gústaf. „Það var bæði góð mæting og fín stemning. Þemað hjá okkur í ár var ,,íslensk húsdýr“ og nemendur og kennarar voru búin að semja leikrit og dansa í tengslum við það. Að auki höfðu þau samið lög af ýmsu tagi sem börnin sungu af mikilli list. Eins og í fyrra hófst árshátíðin á skólasöng Patreksskóla sem allir nemendur skólans sungu saman á sviðinu, en að honum loknum hófust atriði bekkjanna. Foreldrafélag Patreksskóla sá svo um veglegar kaffiveitingar í hléi. Leikmuna og búningagerð var í höndum kennara, nemenda og foreldra og greinilegt að við eigum mjög listrænt og hugmyndaríkt fólk hérna á svæðinu. Við í Patreksskóla þökkum gestum kærlega fyrir komuna og foreldrafélaginu fyrir samstarfið,“ segir Gústaf að lokum og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var mikill metnaður lagður í árshátíðina hjá Patreksskóla.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com