Þeir sem hafa unnið með Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ, eða þekkja hann persónulega, vita að hann á það til að vekja athygli á núvitund. Hugtakið hefur verið dálítið í tísku undanfarið, án þess þó að þorri landsmanna viti raunverulega um hvað málið snýst. BB innti Gísla svara um núvitund og hvernig hann notfærir sér þessa hugmyndafræði í daglegu lífi og enn fremur, af hverju?
„Í upphafi ársins 2016 hafði ýmislegt orðið á vegi mínum sem vakti mig til umhugsunar um sjálfan mig og afstöðu til ýmissa hluta í lífinu. Ég hafði lesið nokkrar góðar bækur um stjórnun og var hugsi yfir hvernig mín eigin viðbrögð spila saman við viðbrögð annarra. Mesta hugljómunin varð þó í tengslum við stjórnendaþjálfun sem við fengum Hagvang til að halda fyrir okkur, mig, sviðsstjórana og mannauðsstjóra,“ segir Gísli Halldór.
Hann segir enn fremur að hluti af stjórnendaþjálfuninni hafi verið persónuleikamat og niðurstöðurnar úr því hafi meðal annars verið ræddar við starfsmann Hagvangs, Leif Geir Hafsteinsson, doktor í vinnusálfræði. „Leifur útskýrði fyrir okkur að hver og einn ætti sér fjórar hliðar. Þá sem allir þekkja, þá sem aðeins maður sjálfur þekkir, þá sem aðrir en maður sjálfur þekkja og svo að síðustu þá hlið sem er hulin og enginn þekkir. Persónuleikaprófunum var ætlað að draga fram þessa þætti, nema að sjálfsögðu þann síðasta.“ Gísli segir að Leifur hafi hjálpað þeim að uppgötva nokkra þessara þátta sem aðrir þekkja en ekki einstaklingurinn sjálfur. „Það var ótrúleg upplifun og sumu vildi maður ekki trúa í fyrstu. En það er nauðsynlegt ef gera á úrbætur á einhverju að átta sig fyrst á göllunum. Þá er hægt að gera breytingar til hins betra.“
Gísli útskýrði fyrir blaðamanni BB að núvitund eða árvekni, snérist í stuttu máli um það að vera með hugann við viðfangsefnið hverju sinni og leyfa bæði fortíð og framtíð að liggja kyrri um stund. Skipulagning til framtíðar þyrfti þó auðvitað að vera inni í myndinni en þess utan væri best að einbeita sér að hverju verkefni fyrir sig, hvort sem það er í vinnunni eða í faðmi fjölskyldunnar og láta ekki hugann flögra frá einu í annað.
En vinnusálfræðingurinn Leifur Geir kenndi starfsmönnum Ísafjarðarbæjar ekki bara árvekni heldur líka orkustjórnun. Sú stjórnun felst í því að hver og einn temji sér vinnulag sem varðveitir og endurnýjar líkamlega orku í stað þess að sóa henni. Þetta felur auðvitað í sér að einstaklingurinn hafi góða stjórn á sér og umhverfi sínu en þá verður hann líka oftast upp á sitt besta. Gísli Halldór segir líka að hann hafi lesið bækur sem kenna ýmsar hugleiðslutengdar æfingar til að skerpa á árvekninni. „Þessar æfingar fjalla um að beina athyglinni að því sem er að gerast í umhverfinu, eða þá að beina athyglinni inn á við. Hugleiðsluæfingarnar geta verið af ýmsu tagi, mér hentar til dæmis einna best að hugleiða á göngu og geri það oft á leið í og úr vinnu, það höfðar einhvern veginn minna til mín að sitja grafkyrr með lokuð augun og hugleiða. Það er engin röng aðferð við að hugleiða og ef hugurinn reikar þá er bara að stilla hann aftur, í því felst æfingin. Bækurnar fjalla einnig um það hvernig maður bregst við ytra áreiti og eigin tilfinningum og benda þær á leiðir til að koma í veg fyrir að þessi áreiti raski eigin hugarró. Rifrildi og átök verða oft fyrir ólíkan skilning á hlutunum og með því að halda stillingu og íhuga sjónarhorn hins aðilans er mun oftar hægt að komast að ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila,“ segir Gísli með stóískri ró.
Hann segir að bæði bækurnar og stjórnendaþjálfunin hjá Hagvangi hafi verið honum mikil hugljómun. Fyrir vikið lærði hann að þekkja betur eigið ástand og mögulega streituvalda. „Frá því ég tók við sem bæjarstjóri, 19. júní 2014 og þangað til þarna var komið, hafði ég haft mjög gaman af að takast á við þau fjölbreyttu og mörgu verkefni sem fylgja bæjarstjórastarfinu. Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir var að ég var í raun alltaf í vinnunni og með hugann við vinnuna. Þetta byggði smám saman upp hjá mér streitu, án þess að ég tæki eftir því sjálfur. Eftir þetta hefur mér að mestu tekist að leggja frá mér starfið, þó það sé skemmtilegt, þegar ég er kominn heim eða er í frístundum og það endurnýjar verulega starfsorkuna.“
Sú þjálfun sem Gísli hefur gengið í gegnum gerir það að verkum að hann telur athygli sína vera betri, sem og minnið. Hann segist þó auðvitað ekki vera óbrigðull frekar en aðrir og stundum gleymist núvitundin, þó oftast gangi vel að lifa eftir hugmyndafræðinni. „Það koma auðvitað tímar, þegar einhver mál liggja þungt á manni og erfitt er að hafa hugann á staðnum, en núvitundarfræðin segja að þá eigi finna sér tíma sem fyrst til að kryfja málið og melta og reyna þannig að losna við það úr huganum. Það getur verið árangursríkt og komið í veg fyrir að maður sé að þvælast áfram með óuppgerð mál og tilfinningar því tengdu. Þó núvitundin reynist mér enn vel þá finnst mér vera kominn tími á að ég gluggi aftur í þessar bækur og æfi mig betur í hugleiðslunni. Dalai Lama segir nefnilega að ef einstaklingur breytir hugsanamynstri sínu, geti hann breytt viðhorfum sínum og tilfinningum, og þannig öðlast frið og innri ró,“ segir Gísli Halldór Halldórsson að lokum um þessi áhugaverðu fræði.
Sæbjörg
sfg@bb.is