Fjölskyldulíf er dásamlegt í sjálfu sér. Á mínu heimili, sem telur fimm manns og tvo ketti, byrjar dagurinn um klukkan sjö. Þá hefst einskonar samskiptakapall sem annað hvort gengur upp, eða ekki:
Þið vitið, án þess að morgunpirraði hálf-unglingurinn bíti fast frá sér, á meðan miðbarnið gerir allt sem það getur til að fara í taugarnar á honum. Á meðan ég reyni að vekja mæðgurnar í hópnum sem elska báðar að velta sér yfir á hina hliðina „bara einu sinni enn“. Á meðan ég fer fyrir framan spegil og reyni að hemja haddinn minn og hipsteraskeggið. Á meðan miðbarnið áttar sig á því að það er smá vindur úti og vill þá alls ekki labba í skólann. Á meðan sá elsti er búinn að taka úr uppþvottavélinni, smyrja sér nesti og farinn út, en smurði óvart heimiliskettina í leiðinni. Á meðan dóttirin kallar í þúsundasta skiptið: „Gleðilegt páskaegg!“ (það var fyndið ca. þrisvar sinnum um páskana). Á meðan ég stíg á bangsa í stiganum, en fatta svo að þetta er köttur að heimta mat. Á meðan það uppgötast að það er kaffilaust á heimilinu, ég er með gat á sokkunum og í bolnum mínum öfugum. Á meðan ég er óvænt búinn að finna kaffi, er nýsestur með rjúkandi bolla og heyri þá kallað: „Búinn!“ Á meðan við ákveðum að fara á bílnum í vinnu og skóla, en þurfum að skafa rúðurnar. Á meðan ég fatta, nýkominn í vinnuna eftir að hafa skilað öllum á sinn stað, að það er dótadagur á leikskólanum.
En þegar allt kemur til alls skiptir engu hvort kapallinn gengur upp eða ekki: mikilvægast er auðvitað að öll spilin séu í stokknum þegar hann hefur verið tekinn saman um kvöldið, tilbúinn fyrir næstu gjöf.
Dálkahöfundur vikunnar er Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur og þriggja barna faðir í Hólmavík.