Árið 2007 hóf Fjölbrautarskóli Snæfellinga, eða FSN, rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði. Þetta var gert til að auðvelda nemendum að dvelja lengur í heimabyggð, en geta engu að síður sótt nám sem þeim hugnaðist. Nemendur af öllu suðursvæði Vestfjarða geta stundað þau námskeið í fjarnámi, sem eru í boði í Fjölbrautarskólanum. Nemendurnir eru þá undir stjórn kennara í Grundarfirði, en með leiðsögn frá deildarstjóra á Patreksfirði. Sá deildarstjóri heitir Eydís Þórsdóttir og í vetur hefur hún umsjón með 15 nemendum sem stunda nám við deildina. Þessir nemendur eru á Félags- og hugvísindabraut, náttúru- og raunvísindabraut og framhaldsskólabraut.
„Námið er byggt upp þannig að nemendur eru ýmist hluti af nemendahópum í FSN eða í sérstökum hópum. Öll kennsla fer fram frá Grundarfirði, því kennararnir eru staðsettir þar. Námsefnið er lagt fyrir nemendur í gegnum námsumsjónarkerfi, en þess utan hafa nemendur aðgang að kennurum gegnum skype, tölvupóst og fjarfundabúnað. Kennarar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefðbundnum tímum og verkefnatímum með þeim leiðum sem fyrir hendi eru. Námið fer að miklu leyti fram með sjálfstæðri verkefnavinnu, þar sem nemendur vinna einstaklingsverkefni eða hópverkefni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grundarfirði. Öllum verkefnum er svo skilað gegnum námsumsjónarkerfið og flest próf eru jafnframt tekin þar,“ segir Eydís í samtali við BB.
Fjarfundirnir fara fram í framhaldsdeildinni á Patreksfirði og nemendur frá Tálknafirði, Bíldudal og Barðaströnd koma þangað með almenningssamgöngum. Fjarfundirnir fara fram með nemendum á Grundarfirði, en þó er ekki hægt að varpa öllum fundum vestur vegna þess að deildin á einungis tvo fjarfundabúnaði. „Allir nemendur í deildinni eru með hefðbundna stundatöflu og ég reyni að setja upp fjarfundartöflu þar sem flestir fá tvo til þrjá tíma á viku í hverjum áfanga. Ég reyni að forgangsraða eftir því í hvaða áföngum ég tel mesta þörf fyrir fjarfund. Nýnemar fá til að mynda flesta fjarfundi en þeir sem eru lengra komnir þurfa ekki eins mikið á þeim að halda því þeir eru orðnir miklu sjálfstæðari í námi. Aðrir tímar sem ekki er hægt að hafa í fjarfundi fara fram á skype, þar láta nemendur kennara vita að þeir séu mættir og fá fyrirmæli um hvað á að gera í tímanum. Einnig eru verkefnatímar hér líkt og á Grundarfirði einu sinni á dag. Í verkefnatímum veiti ég námsaðstoð við nemendur í deildinni, en einnig er hægt að óska eftir að kennarar mæti í fjarfund í verkefnatíma,“ segir Eydís í samtali við BB og það er greinilegt að vel er haldið utan um framhaldsskólanema á Suðurfjörðunum.
Jafnvel þó unga fólkið hittist reglulega á Patreksfirði þá er einnig mikilvægt fyrir þau að hitta kennara og aðra nemendur í eigin persónu. Þess vegna eru farnar þrjár ferðir á önn til Grundafjarðar, þar sem nemendur geta fengið viðbótarþjónustu hjá kennurum, en einnig fengið tækifæri til að taka þátt í félagslífi í stærra skólaumhverfi. Dagsetning ferðanna ræðst svo af viðburðum hjá nemendafélaginu í Grundarfirði og unga fólkið nær að taka þátt í stærstu viðburðunum.
Eydís segir að námið sé ekki skilgreint sem fjarnám heldur blanda af dreifnámi og staðnámi, þar sem nemendurnir hafa sömu mætingarskyldu og aðrir nemendur FSN. „Framhaldsdeildin hefur opnað þann möguleika, fyrir þá nemendur sem það kjósa, að stunda nám í heimabyggð og ég tel að með komu deildarinnar þá fari fleiri í nám en annars hefði verið. Í upphafi var gert ráð fyrir að nemendur gætu tekið fyrstu tvær til þrjár annirnar í deildinni, en með tímanum hefur það breyst og fleiri og fleiri útskrifast héðan með stúdentspróf,“ segir Eydís að lokum að það er með sanni hægt að segja að tæknin sé frábær þegar hún gerir fólki kleyft að velja sér búsetu og nám óháð staðsetningu.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com