BB hafði samband við Helenu Jónsdóttur, skólastjóra Lýðháskólans á Flateyri, til að kanna hvort einhverjar umsóknir hefðu borist fyrir skólavist í Lýðháskólann. Hún svaraði því til að það væru nú þegar kominn töluverður fjöldi af umsóknum, en opnað var fyrir þær þann 15. apríl. Helena hefur auk þess fengið mjög margar fyrirspurnir um námið sem gefur til kynna mikinn áhuga fólks á námi af þessu tagi. „Við byrjum að vinna úr umsóknum 1. maí og hafa þær umsóknir sem hafa borist fyrir þann tíma forgang við afgreiðslu,“ sagði Helena í samtali við BB. Þann 2. maí næstkomandi munu forsvarendur Lýðháskólans skunda á Kex Hostel í Reykjavík og kynna námið og námslínurnar fyrir áhugasömum. Í auglýsingunni segir að fyrir utan að kynna skólann muni þau líka segja frá því hversu æðislegt það er að búa á Flateyri og miðað við úrvalið af kennurum sem munu leiðbeina við skólann næsta vetur ætti enginn að vera svikinn af því að flytja í Ísafjarðarbæ í eina eða tvær annir.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com