Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fundar um verndaráætlun

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar, sem haldinn var 23. apríl, var lögð fram til umsagnar tillaga um stefnumarkandi landsáætlun varðandi uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja. Í þingályktuninni kemur fram að nýting ferðaþjónustu og útivistar skuli ekki spilla náttúru og menningarsögulegum minjum og: „… minnka þannig aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar.“

Í ályktuninni koma fram fjögur áhersluatriði til að vinna að markmiði um stýringu og sjálfbæra þróun þessara svæða. Þessi atriði fjalla um að sett verði lög og reglur um stýringu ferðamanna, lönd og staðir verði flokkuð með tilliti til sama og þolmörk ferðamennsku og svo að merkingar og miðlun til ferðafólks verði samræmd og vel aðgengileg. Ályktun alþingis er unnin samkvæmt lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Á árunum 2018-2029 á að vinna að uppbyggingu innviða með þeim markmiðum að svæðum verði stýrt og þau þróist á sjálfbæran hátt, að náttúra og menningarsögulegar minjar séu verndaðar, öryggismál séu í lagi sem og skipulag og hönnun ferðamannaleiða. Gert er ráð fyrir ótímabundinni fjárveitingu til þessarar landsáætlunar í fjárlögum 2018. Sú fjárveiting nemur 660 milljónum króna fyrir þetta ár, fyrir utan 100 milljónir sem ferðamálaráðherra hefur ákveðið að leggja til Dynjanda og Geysis.

Svo segir enn fremur: „Skilgreindir verði ákveðnir staðir í öllum landshlutum þar sem faglega verði staðið að uppbyggingu innviða til verndar náttúru og minjum. Jafnframt verði stöðum, þar sem náttúra eða minjar eru sérlega viðkvæm eða innviðir ónógir eða metnir óæskilegir, hlíft við skipulagðri umferð ferðamanna. Áhersla verði lögð á að beina meginþorra ferðamanna á þá áfangastaði í viðkomandi landshluta þar sem unnið er að uppbyggingu innviða og aðstaða og þjónusta er fullnægjandi… Stefnt verði að því að framkvæmdir á viðkvæmum svæðum með aðdráttarafl séu byggðar á þolmarkarannsóknum og afturkræfar í anda sjálfbærrar þróunar, þ.e. að verði innviðir fjarlægðir beri staðurinn ekki varanleg merki þeirra að tilteknum tíma liðnum. Stefnt verði að því að fyrirbyggja álag með uppbyggingu innviða í stað þess að brugðist sé aðallega við því álagi sem orðið er.“

Til stendur einnig að setja skýrari reglur um aðgangsstýringu ferðamanna í þeim tilgangi að ríkari heimildir liggi fyrir til að stýra ferðafólki í samspili eignarréttar á landi og almannaréttar einstaklinga. Þá verði settar reglur um landgöngu ferðamanna af skipum utan hafna og umgengni við villt dýr á grunni gildandi laga. Líka að mótaðar verði reglur fyrir gangandi fólk og sérlega viðkvæm svæði sem þó hafa mikið aðdráttarafl og að slíkri umferð sé beint á tiltekin áningarstað en ekki að viðkvæmu yfirborði sé raskað. Langtímasýn þessa er sú að vernd náttúru og menningarsögulegra minja njóti alltaf forgangs. Við lok gildistíma áætlunarinnar eiga svo ekki að vera neinar náttúru eða menningarsögulegar minjar skilgreindar í yfirvofandi hættu við að tapa verndargildi sínu vegna ferðafólks.

Þá er einnig áformað að vinna að lausn ágreinings um eignarhald eða umsjón á stöðum sem teljast mikilvægir út frá landsáætlun og í sumum tilvikum geti lausnin falist í friðlýsingu svæðis. Stjórnvöld muni einnig móta stefnu er varðar uppkaup ríkis á landi eða mannvirkjum, meðal annars til að leysa úr ágreiningsefnum sem upp geta komið.

Hlutverk sveitarfélaganna er svo að skilgreina í samráði við viðeigandi stofnanir, hvaða staðir í náttúrunni og hvaða menningarsögulegu minjar henta fyrir umferð ferðamanna. Stefnumörkun af því tagi á að vera sett fram við gerð aðalskipulags og einnig á að gera átak í deiliskipulagi ferðamannastaða. Sveitarfélög eiga einnig að skilgreina mismunandi eðli ferðamannastaða. Svo sem staði sem geta tekið á móti miklum fjölda, staði sem þarf að vernda og staðir sem höfða til ákveðinna tegunda af ferðamennsku.

Bæjarráð vísaði umsagnarbeiðninni um þingsályktunartillöguna til atvinnu- og menningarmálanefndar og hefur frest til að tjá sig um hana til 4. maí næstkomandi.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA