Úrslitakeppnin hafin hjá Vestra

Á fimmtudaginn s.l. hófst úrslitakeppni um laust sæti í Dominosdeildinni, en þar atti Vestri kappi við lið Breiðabliks úr Kópavogi. Breiðablik endaði deildarkeppnina fyrir ofan Vestra og fengu því heimavallarréttinn, en það lið sem fyrst sigrar þrjá leiki fer í úrslitaleikina.

Vestramenn héldu í víking suður á fimmtudaginn og voru nokkuð brattir, en samt söknuðu þeir Nemanja Knecevic er meiddist fyrir rúmum mánuði á hné og munar um minna þar sem hann hafði verið besti leikmaður Vestra í vetur með 23 stig og 20 fráköst að meðaltali í leik. En það þýðir eigi að gráta Bjössa bónda og verða menn að stíga upp og bæta í.

Leikurinn byrjaði af krafti af hálfu heimamanna og voru Vestramenn ekki að spila vel saman. Ingimar Aron og Nebosja héldu Vestra inn í leiknum en það voru heimamenn sem höfðu forustu eftir fyrsta leikhluta 22-15.

Annar leikhluti var algjörlega eign Blika og var vörn Vestra í fríi og lítið um leikgleði eða baráttu. Hálfleiks tölur 53-30 og Yngvi þjálfari að munda blásarann fyrir hálfleiksræðuna.

Það var að sjá á leik Vestra að þeir væru búnir að tala sig saman um baráttu og vilja, því þeir komu flottir inn í seinni hálfleik og náðu 12-4 áhlaupi. Þá rönkuðu Blikar við sér og hentu í 11-4 svar og hélst því munurinn svipaður og staðan fyrir síðasta leikhluta 68-46.

Leikurinn hélt áfram að vera flatur af hálfu Vestra og ekki breyttist mikið í leik þeirra sem lið. Lokatölur  urðu 93-64 og Breiðablik því komið í 1-0 í einvígínu.

Það sem átti stærstan þátt í að gera þennan leik svona óspennandi voru 25 tapaðir boltar hjá Vestra, sem skiluðu sér í 20 auðveldum stigum úr hraðaupphlaupum.

Besti leikmaður Vestra var Ingimar Aron Baldursson með 23 stig og 5 stoðsendingar (6/10) í þriggja stiga skotum.

Núna er að duga eða ekki á Jakanum. Heimaleikur verður á Jakanum sunnudagskvöldið 18.mars og hefst leikurinn kl.19.15.

-Gaui

DEILA