Tungumálatöfrar er sumarnámskeið á Ísafirði fyrir fjöltyngd börn og er markmið þess að búa til málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Námskeiðið er hugsað fyrir íslensk börn sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börn af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi. Það er þó opið öllum börnum. Myndlistarkonurnar Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nína Ivanova ásamt tónlistarkennaranum og gítarleikaranum Jóni Gunnari Biering Margeirssyni leiða börnin áfram í gegnum myndlist, sögur og tónlist. Isabel Alejandra Díaz er verkefnastjóri.
Kennt er frá kl. 13-17 í eina viku, 6. – 11. ágúst. Í upphafi hverrar kennslustundar er söngstund en eftir það verður farið í verkefni dagsins. Unnið er með þema sem tengist sjónum, bátunum, sjóferðum og fólkinu á Ísafirði. Nemendur nota hugmyndaflug sitt við úrvinnslu verkefna og leitað verður eftir viðbrögðum hjá þeim til að hvetja þau til að tjá sig. Verkefnin gefa hverju barni tækifæri til að nota fleiri en eitt tungumál og kenna hinum börnunum á námskeiðinu sitt tungumál en um leið er lögð áhersla á að styrkja íslenskukunnáttu þeirra allra.
Á lokadegi er efnt til tungumálaskrúðgöngu þar sem börn og bæjarbúar ganga frá Menningarmiðstöðinni Edinborg niður í Neðstakaupstað til þess að fleyta bátum og fagna fjölbreytileikanum. Sungið er í fjöruborðinu og efnt til matarveislu. Fólk hvatt til að koma með fána og í búningum í skrúðgönguna. Verkefnið er framkvæmt með stuðningi frá Ísafjarðarbæ og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
Skráningar á þetta áhugaverða og þarfa námskeið berist á netfangið tungumalatofrar@gmail.com. Þrjátíu börn komast að og gjald er 15.000 krónur