Hópurinn Stöndum saman Vestfirðir var stofnaður árið 2016 af þeim Tinnu Hrund Hlynsdóttur Hafberg, Hólmfríði Bóasdóttur og Steinunni Guðnýju Einarsdóttur. Upphafið má rekja til þess að þær voru þá orðnar uppgefnar á neikvæðum fréttum frá hinum ýmsu stofnunum, sem snéru að því að ekki væri hægt að standa straum af allskonar nauðsynlegum tækjum og tólum vegna peningaskorts. Þær ákváðu því að taka málin í eigin hendur og stofnuðu hópinn Stöndum saman Vestfirðir, sem hafði það hlutverk að hvetja Vestfirðinga til að hjálpa sér sjálfir þegar þess er þörf og auðvelda safnanir fyrir nauðsynlegum hlutum.
„Fyrst og fremst vildum við gera góða hluti fyrir samfélagið okkar og hvetja Vestfirðinga til að standa saman,“ segir Tinna og bætir við að fyrsta söfnunin hafi verið fyrir vökvadælu og barkaþræðingartæki fyrir Hvest. „Eftir á að hyggja var þessi fyrsta söfnun frekar stór biti, því við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara og hvort fólk yfir höfuð myndi taka þátt. En við vönduðum okkur mikið, hvöttum fólkið í hópnum áfram og vorum jákvæðar. Fljótlega fór söfnunin úr okkar höndum og fólk bretti upp ermar, stóð saman og tók þátt. Sú söfnun endaði á að ganga vonum framar.“
Tinna bætir við að þær stöllur hafi fljótlega komist að því að þegar fólk stendur svona þétt saman, þá séu því allir vegir færir. Á vormánuðum árið 2016 afhentu þær Hvest tækin og fengu frábærar móttökur frá yndislegu starfsfólki stofnunarinnar.
Fljótlega hófst næsta söfnun, en þá var ákveðið að horfa til Patreksfjarðar og safna fyrir sjúkrarúmi og dýnu. „Sú söfnun gekk ótrúlega vel, en við fórum rétt fyrir jólin árið 2016 í dagsferð til Patreksfjarðar og afhentum rúmin. Við fengum gott fólk til liðs við okkur, sem gaf kaffi og við komum með konfekt,“ segir Tinna og heldur áfram: „Það var alveg hrikalega gaman að komast vestur og hitta fólkið á Heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði, þar sem við fengum virkilega hlýjar og góðar móttökur.“
Stöndum saman Vestfirðir létu ekki þar við staðar numið, heldur skelltu sér í næstu söfnun, þar sem safnað var fyrir hjartastuðtækjum í lögreglubílana á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík. Tinna segir að safnast hafi fyrir þessum tækjum á mettíma, en alls tók söfnunin ekki nema tvær vikur, sem sýnir aldeilis vel hversu vel gengur þegar fólk tekur höndum saman.
Síðasta sumar slóst Stöndum saman Vestfirðir hópurinn í lið með Kvenfélaginu Sunnu, þar sem verið var að safna fyrir nýju ómskoðunartæki á Hvest.
„Núna erum við í hópnum lögð af stað með nýja söfnun, en við stefnum á að safna fyrir tveimur hjartastuðtækjum í björgjunarskipið á Ísafirði og á Patreksfirði. Slíkt tæki er ekki um borð í skipinu á Patreksfirði og tækið í björgunarskipinu á Ísafirði er komið til ára sinna og lengi hefur staðið til að endurnýja það,“ segir Tinna og heldur áfram: „Við byrjum alltaf á því að ákveða hverju við viljum safna fyrir. Við leitum þá til fólksins á facebook síðunni okkar, hvetjum þau til að senda okkur hugmyndir og við skoðum þær allar.“ Tinna segir að þær stöllur geri voða lítið, nema taka niður hugmyndir og hrinda af stað söfnuninni. „Við setjum síðan verkefnið í hendur allra Vestfirðinga og það erum við öll, allt samfélagið, sem vinnur að því að ná settu marki.“ Tinna talar um að það sé ekki til nein töfralausn þegar kemur að svona söfnunum, heldur sé það bara svo einfalt að hver króna skipti máli, „enginn gerir allt einn, en allir geta gert eitthvað og engin upphæð er of lág.“
Tinna segir að þetta sé fyrst og fremst skemmtilegt verkefni, en þær séu afar stoltar af því að tilheyra svona flottu samfélagi, sem hjálpar sér sjálft og stendur þétt saman. „Við setjum engan tímaramma á safnanirnar, þær taka bara þann tíma sem þarf til að ná upp í þá upphæð sem við þurfum hverju sinni. Safnanirnar hafa tekið allt frá tveimur vikum og upp í fimm mánuði.“ Tinna bendir á að það sé heldur ekki það sem skipti máli, heldur vilji þær bara klára hverja söfnun. „Við hugsuðum okkur að reyna að hafa tvær safnanir á ári, eina snemma árs og aðra að hausti. Hingað til hefur það tekist.“
Tinna hvetur fólk eindregið til að senda hugmyndir af nýjum söfnunum á facebookhópinn Stöndum saman Vestfirðir og þá geti fólk einnig deilt síðunni áfram, svo hún fari sem víðast. Margt smátt gerir eitt stórt.
Reikningsupplýsingar félagsins eru eftirfarandi:
Kt. 410216-0190, Banki 156-26-216
-Margrét Lilja Vilmundardóttir
margretliljavilmundardottir@gmail.com