Það leynast margir fræðimenn á Vestfjörðum sem fáir vita kannski um. Í það minnsta fara rannsóknir þeirra ekki alltaf jafn hátt og þær ættu kannski að gera. Ein þessara fræðimanna er Esther Ösp Valdimarsdóttir, sem býr ásamt manni sínum og þremur börnum á höfuðbólinu Snæfelli á Hólmavík. Esther er mannfræðingur að mennt og með kennsluréttindi að auki og hefur unnið með unglingum í þó nokkuð mörg ár. En meðfram því og öðrum störfum, hefur hún unnið að stóru þverfaglegu rannsóknarverkefni síðan árið 2011 sem fjallar um siðinn að senda börn í sveit.
„Að rannsókninni starfa mannfræðingur, bókmenntafræðingur, þjóðfræðingur, safnafræðingur, barnalæknir og félagsráðgjafar auk fjölmargra háskólanema.“ Segir Esther í samtali við bb.is. „Ég hef unnið að verkefninu frá árinu 2011 eða frá upphafi, ásamt Jónínu Einarsdóttir, prófessors í mannfræði. Í upphafi sinnti ég almennri gagnaöflun, tók viðtöl, sótti um leyfi og styrki svo eitthvað sé nefnt en eftir að ég flutti á Strandir hef ég einbeitt mér að eigindlegum viðtölum við fólk sem var í sveit á þessu svæði og hina sem bjuggu á sveitabæjunum. Það sem stendur upp úr er upplifun heimilisfólksins af þessum sið, bæði góð og slæm og þá sérstaklega kynbundin verkaskipting hvað varðar umönnun barnanna.“
Haustið 2016 opnaði Esther sýningu á Sauðfjársetri á Ströndum sem tengist rannsókninni og fjallar um sumardvalir í sveit. Sýninguna gerði hún í samstarfi við þjóðfræðinginn Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og með styrk frá bæði Fjórðungssambandi Vestfjarða og Rannís en höfuðáhersla fræðinganna var að sýningargestir gætu nýtt öll skilningarvitin á sýningunni í gegnum tjáningu og leik. Von þeirra er einnig sú að sýningin opni á samtal milli kynslóða um þennan sið sem svo margir tengjast.
En það er ekki það eina sem mannfræðingurinn á Ströndum hefur afrekað. „Núna er ég að skrifa kafla í ritrýnda bók sem aðstandendur verkefnisins munu gefa út,“ segir Esther. „Þar fjalla ég um reynslu bænda og búalýðs af sveitadvöl barna en reynsla barnanna á bæjunum og síðan húsmæðra sem voru á haus í þvotti og eldamennsku er sérlega áhugaverð. Svo ritstýri ég líka handbók um siðinn ásamt klárum konum en þar verður fjallað um þetta efni á almennan hátt með fjölbreyttu myndefni, tilvísunum í fjölmiðla, bókmenntir og frásagnir einstaklinga svo eitthvað sé nefnt. Og vonandi verður hægt að gefa báðar bækurnar út árið 2019. Í sumar fer ég sömuleiðis í tökur heimildarmyndar sem gerð verður í tengslum við verkefnið.“
-Sæbjörg
sabjorg@gmail.com