Það verður þéttskipuð dagskrá á Tjöruhúsinu um helgina en síðasta misserið eða svo hefur verið vetraropnun og kráarstemning á þessum vinsæla veitingastað sem annars er fyrst og fremst opinn á ferðamannatímanum. Yfirskrift helgarinnar er „Hamfarahelgi á Tjörubar“ og verður hún innblásin af ummælum Hallgríms Helgasonar og Gísla Marteins Baldurssonar í vikunni.
„Meiningin er kannski fyrst og fremst sú að svara hreint út sagt hlægilegum umleitunum þeirra kumpána Gísla og Hallgríms með alvöru góðu gríni og leggja um leið góðu málefni stuðning,“ segir Haukur S. Magnússon vert í Tjöruhúsinu.
Gestum býðst að kaupa bjór á því uppsrengda verði sem tíðkast í póstnúmerinu 101, eða 1.400 kr. í stað hóflegrar verðlagningu Tjöruhússins sem útleggst á 600 kr. Mismunurinn rennur til flóttamannastarfs Rauða krossins á Vestfjörðum.
Haukur segir að fokið hafi í hann við ummæli Hallgríms og Gísla Marteins. „En fljótt fór ég bara að hlæja að þeim, enda lengi getað hlegið af sjálfhverjum minnimáttarkenndarmikilmennskuöfgum höfuðborgarbúa, ekki síst eftir að hafa búið langdvölum í erlendum stórborgum.“
Haukur gengst við því að verið sé gera grín að Hallgrími og Gísla Marteini en segir það vera góðlátlegt. „Fyrst og fremst er verið að svara dissi með kærleik og nota tækifærið til að meta að verðleikum framlög höfuðborgarinnar og þá sérstaklega þessara talsmanna hennar. Um leið ræða málefni heimamanna, núverandi, nýrra og væntanlegra. Til dæmis að ræða laxeldið sem margir telja framtíð atvinnulífs hér vestra. Og líka verður safnað fyrir góðu málefni með góðlátlegu skoti á óhóflegt verðlag ölkráa borgarinnar,“ segir Haukur.
Meðal þess sem verður á dagskránni um helgina er „opinská umræða um þætti fjölmiðlaprinsins knáa, Gísla Marteins, um blaðamanninn knáa, Tinna.“
Eiríkur Örn Norðdahl, les þýðingu „endurreisnarmannsins knáa, Hallgríms Helgasonar, á ljóðverki rapparans knáa, Ice-T.“
Undir dagskrárliðnum Hvað með spegilsléttan fjörðinn? verður „fádæma hlutlaus umræða um laxeldi á Vestfjörðum, hvar sjálfur Þorsteinn Másson, hálaunaður áróðursmaður norskra náttúruböðla situr fyrir svörum“ og yfirkokkur Tjöruhússins „galdrar fram dásemdarmat mat úr ljúffengum eldislaxi sem vinir okkar í Arnarlaxi leggja til.“