Reykvísku ölprísarnir slógu í gegn

Tjöruhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Um helgina var þétt dagskrá í Tjöruhúsinu á Ísafirði undir yfirskriftinni „Hamfarahelgi“. Dagskrá helgarinnar var innblásin af ummælum Hallgríms Helgasonar og Gísla Marteins Baldurssonar um komu flóttamanna til valdra staða á landsbyggðinni, meðal annars til Ísafjarðar, Súðavíkur og Flateyrar.

Ummælin vöktu bæði reiði og hneykslan og Hallgrímur tók orð sín til baka á auðmjúkan hátt.

Viðbragð Tjöruhússins var fyrrnefnd Hamfarahelgi þar sem boðið var upp á dagskrá tileinkaðri reykvískri menningu auk þess að ræða mál sem brenna á Vestfirðingum. Það sem vakti sérstaka athygli var að gestum Tjöruhússins bauðst að kaupa guðaveigar á því verði sem tíðkast á öldurhúsum í 101 sem er ívið hærra, svo ekki sé meira sagt, en tíðkast hér vestra. Mismunurinn rennur til flóttamannastarfs Rauða krossins á Vestfjörðum. Það má með sanni segja að gestir Tjöruhússins hafi verið ófeimnir við að greiða 101 verðið og Haukur S. Magnússon vert í Tjöruhúsinu segir að um 70 þúsund krónur hafi safnast.

Haukur segir að aðrir dagskrárliðir, svo sem eins og áhorf á kvikmyndirnar Sódóma Reykjavík og 101 Reykjavík (sem er gerð eftir bók Hallgríms Helgasonar) hafi verið settir fram í góðlátlegu gríni, en öllu gríni fylgir alvara. „Um leið er áhugavert að meta mótandi menningarframlög þeirra og spekúlera í þeim. Það eru engar ofsögur að tilraun til að skoða reykvíska menningu síðustu áratuga sé í raun bara skoðun á íslenskri menningu. Sódóma og 101 Reykjavík voru líklega alveg jafn mikill spegill á menninguna úti á landi eins og í Reykjavík. Myndirnar höfðu mjög mikil áhrif á mína kynslóð og ég held reyndar að við höfum ekki fattað á þeim tíma að höfuðborgin og restin af landinu ættu að vera eitthvað tvennt ólíkt, það gæti verið seinni tíma hugmynd,“ segir Haukur.

Mál sem brenna á Vestfirðingum voru einnig í kastljósi á hamfarahelgi og föstudagskvöldið var opin umræða um laxeldi. Haukur segir að það hafi tekist mjög vel og vill hann gjarnan hafa framhald á. „Pælingin er að vera með fleiri opnar umræður og lýsi ég hér með eftir efnum sem Ísfirðingar og nærsveitungar hafa áhuga á að ræða fyrir opnum tjöldum. Við getum örugglega reddað einhverjum stjórnmálamönnum allavega.“

DEILA