Þingeyrarprestakall áætlar að halda tvær göngur í dymbilvikunni, sem eru hluti af helgihaldi í sókninni.
Göngurnar eru báðar haldnar föstudaginn langa, 30. mars. Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, sóknarprestur í Þingeyrarprestakalli segir að annars vegar sé um að ræða píslargöngu og hins vegar helgigöngu.
“Píslargangan hefst kl. 09:45 í Núpskirkju með morgunbæn. Gangan sjálf hefst svo kl. 10:00 og göngustjóri verður Ólafur Kristján Skúlason. Um er að ræða 26 km leið og göngutíminn er áætlaður um 6 klst. Gengið verður frá Núpskirkju, fyrir fjörð og til Þingeyrar.” Hildur bætir við að þetta verði rösk ganga, þó svo auðvitað gangi hver á sínum forsendum. “Píslargangan er farin til minningar um þær þjáningar, sem Kristur leið á föstudaginn langa.” Hildur bætir við að eftir gönguna verði þátttakendum boðið upp á hressingu í Stefánsbúð á Þingeyri, en einnig verði boðið upp á akstur aftur að Núpi, svo fólk geti sótt bílana sína. “Við biðjum því fólk að skrá sig í gönguna hjá sóknarpresti, svo við vitum nú hversu marga við munum ferja til baka.”
Helgigangan hefst kl. 10:45 í Mýrarkirkju með bænastund, en gangan hefst kl. 11:00. “Við munum ganga frá Mýrarkirkju að Núpskirkju, sem er um 6 km leið. Að göngu lokinni verður þátttakendum boðið að þiggja súpu í Núpsskóla.” Sr. Hildur mun sjálf leiða þessa göngu og segir að leiðin sé ekki erfið. “Hún ætti að henta flestum. Það er auðvelt að ganga þessa leið með barnavagna eða kerrur og við hvetjum alla til að koma og taka þátt.”