Eitt merkilegasta vestfirska umhverfisverndarátakið á síðari árum er árleg hreinsunarferð í friðlandinu á Hornströndum. Í fjörum ystu annesja safnast upp talsvert rusl sem mest á rætur sínar að rekja til fiskveiðiflotans en þess ber þó að geta að sjómenn og útgerðir hafa tekið sig verulega á á síðustu árum.
Á Jónsmessuhelginni verður farið í fimmtu hreinsunarferðina. Að þessu sinni verður Bolungavík á Ströndum hreinsuð. Uppleggið er að fara seinnipart föstudags siglandi frá Ísafirði til Bolungavíkur. Áætluð koma er eftir kvöldmat eftir um þriggja klst siglingu og myndi fólk koma sér fyrir og byrja að safna rusli um kvöldið. Fólk getur valið hvort það myndi tjalda eða gista í húsum á svæðinu.
Á laugardeginum yrðu fjörurnar hreinsaðar og ruslið ferjað útí varðskip sem verður á staðnum. Um kvöldið verður slegið upp grillveislu fyrir sjálfboðaliða og áhöfn varðskipsins. Ekki amalegt að njóta sumarsólstaða á þessum slóðum!
Á sunnudeginum yrði klárað að hreinsa og siglt á leið heim með varðskipinu að hreinsun lokinni. Áætluð koma til Ísafjarðar er á sunnudagskvöldi.
Aðeins er pláss fyrir um 25 manns í ferðina. Því komast færri að en vilja en þannig hefur það verið öll árin. Formleg skráning er ekki hafin en verður tilkynnt nánar þegar nær dregur.