Meirihlutinn vill lækkuð veiðigjöld

Afdráttarlaus meirihluti aðspurðra eru því fylgjandi að lækka veiðigjöld hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Fiskifréttir.

Grunnniðurstaða könnunarinnar er sú að 49% aðspurðra eru því fylgjandi að lækka veiðigjald á litlar og meðalstórar útgerðir; 14,2% segjast vera því mjög fylgjandi en 34,4% frekar fylgjandi. Hin hliðin á peningnum er sú að 23% segjast slíkum breytingum andvíg; 12,9% er því frekar andvíg og 10,1 taka slíkt ekki í mál. Alls eru það 28% aðspurðra sem kæra sig kollótta um slíkar breytingar.

Ef aðeins er horft til þeirra sem tóku afstöðu eru 68% aðspurðra því fylgjandi að lækka gjöldin á litlar og meðalstórar útgerðir en 32% því andvíg.

Kvótakerfið, veiðigjöld og sjávarútvegskerfið í heild hefur eðlilega verið rammpólítískt mál frá upphafi og sést það glögglega þegar svörin eru mátuð við stjórnmálaskoðanir.

Kjósendur ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, eru margir jákvæðir fyrir því að veiðigjald verði lækkað á litlar og meðalstórar útgerðir. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna eru því mjög eða frekar fylgjandi eða 66%. Á sama veg svarar 48% framsóknarfólks og 54% kjósenda Vinstri grænna. Aðeins kjósendur Miðflokksins taka álíka djúpt í árinni og sjálfstæðismenn, eða 62% sem er breytingunni mjög eða frekar fylgjandi. Afdráttarlausustu afstöðuna með þessari breytingu taka kjósendur Sjálfstæðisflokksins en 30% þeirra eru henni mjög fylgjandi.

Kjósendur Samfylkingarinnar eru neikvæðastir í garð lækkaðra veiðigjalda – 40% eru frekar eða mjög andvígir slíku en aðeins fimm prósent mjög fylgjandi. Til samanburðar svarar aðeins fjögur prósent sjálfstæðismanna því til að standa alfarið gegn slíkri breytingu.

Kjósendur Pírata og Viðreisnar eru þó á svipuðum nótum og kjósendur Samfylkingarinnar, hvort sem litið er til þeirra sem eru jákvæðir eða neikvæðir gagnvart slíkri breytingu.

DEILA