Lögreglan á Vestfjörðum hefur lokið rannsókn sinni á gríðarlegum eldsvoða sem kom upp í húsnæði vélaverkstæðis Hraðfrystihússins – Gunnvarar á Ísafirði í desember.
Segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum að ljóst sé að eldurinn hafi kviknað í rými þar sem meðal annars tvær bifreiðar voru geymdar auk hleðslustöðvar fyrir rafmagnslyftara. Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni í eða við umrædda hleðslustöð.
Lögreglan á Vestfjörðum naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og brunasérfræðings Mannvirkjastofnunar við rannsóknina.
Húsnæði vélaverkstæðis Hraðfrystihússins brann til kaldra kola í eldsvoðanum sem kom upp að kvöldi 8. desember í fyrra.