Hef alltaf verið umhverfissinni

Náttúrufegurðin er ólýsanleg í Árneshreppi eins og allir vita sem þangað hafa komið. Í Djúpuvík tróna klettabeltin yfir litla þorpinu, sem er jafn hljóðlátt á veturna og það er líflegt á sumrin. Eva Sigurbjörnsdóttir hefur búið í Djúpuvík frá árinu 1986. Hún er fædd á Akureyri en ólst upp í Garðabæ sem gekk undir nafninu Garðahreppur í æsku hennar. BB sló á þráðinn til Evu til að forvitnast um lífið í Djúpuvík og konuna sem svaraði svo vel fyrir sig nokkrum vikum áður þegar Kastljós spurði hana spjörunum úr varðandi virkjanaframkvæmdir í hreppnum.

„Ég var nú orðin gift kona með þrjú börn þegar við fluttum alveg í Djúpuvík í maí 1986. Við vorum búin að kaupa síldarverksmiðjuna áður og ætluðum út í fiskeldi en völdum ferðaþjónustu í staðinn og opnuðum hótel hér 1985. Ég gegndi svo starfi hótelstýru fram til áramóta 2015/2016, þá tók tengdasonurinn við og ég gat einbeitt mér að oddvitastarfinu en því hef ég gegnt síðan 2014. Síðan eru kosningar í vor og þá kemur í ljós hvernig framhaldið verður,“ segir Eva og talar eins og þessi miklu störf sem hún hefur verið með á herðum sínum séu leikur einn.

Hótelið er opið allt árið en veður og færð hamla vitaskuld gestakomum hluta tímans. Að sögn Evu halda þau úti skipulögðum vélsleðaferðum yfir veturinn og þá eru það mest Íslendingar sem koma í þær. Ef snjórinn helst í apríl eru þrjár ferðir eftir og ferðafólkið kemur þá á vélsleða frá Steingrímsfirði á föstudegi, beint í kvöldmat og dvelja svo í Árneshreppi fram á sunnudag.

„Það er alltaf opið hjá okkur en það koma tímar þegar það er ófært og þar af leiðandi tókum við málin í eigin hendur og bjuggum til þessar sleðaferðir. En við gömlu hjónin hefðum ekki getað gert þetta ein, öll börnin okkar þrjú eru með í þessu og eitthvað af tengdabörnunum og svo feðgar á Hólmavík. Það er búið að vera vitlaust að gera síðan í lok febrúar og núna til dæmis er kvikmyndafólk hérna sem er í tökum fyrir íslenska bíómynd í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Þau eru búin að vera hérna í rúma viku.“

Það er þó ekki alltaf margmenni í kringum Evu og stundum koma tímar þar sem hún er ein í Djúpuvík. Hún gerir þó lítið úr því og segir að jafnvel þó hún hafi verið ein með hundinum Freyju nokkuð lengi í vetur þá sé hún í raun aldrei ein, það geri sjónvarpið, útvarpið og svo auðvitað internetið. „Maður hefur alla tækni sem þarf,“ segir Eva. Eiginmaður hennar og Magnús tengdasonur þeirra koma til Djúpuvíkur þegar eitthvað er um að vera en Magnús og kona hans eru tekin við hótelrekstrinum.

„Mér finnst stórfínt að vera ein,“ segir þessi knáa kona. „Það truflar mig ekki neitt, nema þegar ég kemst ekki leiðar minnar á þeim tíma sem er mest ófært og þá er ekki hægt að komast neitt nema á sleða. Það er það eina sem er frekar leiðinlegt, það er að komast ekki til vinnu. Ég get unnið heima en það eru nú svona möppur í hillum og svona fyrir norðan sem ég þarf að komast í.“ Þegar Eva talar um að fara norður á hún við skrifstofu sína í Norðurfirði. Stundum hefur hún þurft að ferðast þangað á snjósleða með fylgdarmanni og það getur verið erfitt segir hún, en það orsakast af því að í Árneshreppi hafa ekki verið skikkanlegar mokstursreglur frá áramótum og fram í mars, eins og hún orðar það.

Það eru ekki bara sleðamenn sem sækja til Djúpuvíkur heldur líka listafólk af öllu tagi sem heillast af staðsetningunni og gömlu verksmiðjunni. „Landslagið í Djúpuvík er mjög stórbrotið,“ segir Evav. „Vegurinn liggur í gegnum þorpið og fram hjá verksmiðjunni sem er langstærsta húsið hér. Vestan megin við þorpið eru háir klettar og þar kemur niður foss sem er ýmist lítill eða stór og afskaplega fallegur. Fólk verður yfirleitt bergnumið yfir fegurðinni hérna. Fjöllin ramma inn þessa vík hérna og fjarðarbotninn og það er dásamleg náttúra hérna. Ég get ekki annað sagt. Það eru nokkur hús sem standa auð yfir veturinn, en á sumrin kemur þangað fólk sem bjó hér áður og afkomendur þeirra og núna er þriðja kynslóðin farin að koma. Það er mikið líf hérna á sumrin,“ og lýsingar Evu af lífi og umhverfi í Djúpuvík eru svo lifandi að blaðamaður er umsvifalaust kominn þangað í huganum. „Núna er verið að skipuleggja sýningu í verksmiðjunni sem hefst í byrjun júní,“ bætir Eva við. „Það er dönsk stúlka sem hefur séð um þetta fyrir okkur undanfarin tvö ár og gerir mjög vel. Þetta var mjög flott í fyrra og verður vonandi enn flottara núna, en það voru þrjátíu og sex sem sóttu um að vera með sýningu þetta árið, allt útlendingar, svo það segir svolítið um hversu vinsæl versksmiðjan í Djúpuvík er.“

Þegar blaðamaður BB innir Evu oddvita eftir skoðunum hennar á Hvalárvirkjun vandar hún orð sín og vísar í Kastljósviðtalið sem tekið var í lok janúar 2018 og sjá má á þessari slóð: http://www.ruv.is/frett/radherra-tharf-ad-vanda-sig-vilji-hann-traust

Margir hafa skoðanir á Hvalárvirkjun og ýmsir hafa látið misfögur orð falla og ekki endilega gætt að almennri kurteisi. „Ég er mikill náttúruunnandi og hef verið umhverfissinni allar mínar götur,“ segir Eva um leið og hún hugsar til baka. „En ég bara veg mannlífið þyngra. Þegar maður er annars vegar að hugsa um umhverfi sem mjög fáir komu á, þangað til síðasta sumar og hins vegar mannlífið og framtíðina í Árneshreppi, þá finnst mér ekki vera nein spurning að mannlífið vegur þyngra. Að auki er litið upp til Íslendinga fyrir að nota vatnsorku því þetta er vistvænasta orka sem til er í veröldinni. Þess vegna er ég hliðholl Hvalárvirkjun og hef fulla trú á að hún verði góð fyrir samfélagið hérna, bæði á meðan á framkvæmdum stendur en líka til framtíðar. Það er meirihluti í sveitinni fyrir þessari virkjun þó hinir sem eru á móti og eru færri hafi háværari raddir.“

„Ég óska þessari sveit alls hins besta og myndi aldrei láta mér detta í hug að gera annað en það sem ég tel henni vera fyrir bestu,“ segir þessi áhugaverða kjarnakona að lokum í samtali við BB.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA