Halti Billi á Hólmavík

Leikfélag Hólmavíkur vinnur nú hörðum höndum að uppsetningu leikritsins Halti Billi. Núna eru æfingar í fullum gangi en það verður frumsýnt 2. apríl. Leikritið gerist á Írlandi árið 1934 og er eftir Martin McDonagh, þann sama og var á dögunum tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndahandritið að Three Billboards outside Ebbing, Missouri. Skúli Gautason er leikstjóri verksins sem hann segir að sé fullt af mjög dökkum húmor: „Sagan gerist á eyju þar sem fátt ber til tíðinda. Einn daginn berast svo fréttir af kvikmyndatökuliði frá Hollywood sem ætlar að koma og gera milljónakvikmynd. Við það breytist allt.“

Það verða nokkrar sýningar á Hólmavík í apríl en einnig stendur til að ferðast aðeins um með sýninguna segir Skúli: „Leikfélagið ætlar að halda í þá hefð að fara í leikferð með sýninguna en það verður að vera sitt hvorum megin við sauðburð þar sem sumir leikarar eru alveg bundnir meðan hann stendur yfir. Það er ekki búið að ákveða enn hvert verði farið þannig að ef lesendur í öðrum byggðarlögum vilja sjá sýninguna er um að gera að hafa samband. Ég held það sé þó nokkurn veginn búið að fastsetja síðustu sýninguna norður í Árneshreppi í kringum 17. júní.“

Skúli segir líka að æfingarnar gangi mjög vel: „Það eru algjör forréttindi að fá að vinna með svona hæfileikaríku fólki eins og skipa þennan leikhóp. Margir í hópnum eru þaulreyndir leikarar með heilmikla reynslu, en aðrir eru að stíga sín fyrstu spor á sviði. Það er góður andi í hópnum og hinn dökki húmor í verkinu hefur smitast svolítið inn í hópinn. Þannig að sumt sem er sagt á æfingum er víst best að fari ekkert lengra,“  segir Skúli hress.

– Dagrún Ósk

DEILA