Hættir í bæjarstjórn í vor

Kristján Andri Guðjónsson.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar tilkynnti Kristján Andri Guðjónsson, bæjarfulltrúi Í-listans, að kjörtímabilið sem er að líða verði hans síðasta en ný bæjarstjórn verður kosin í lok maí. Kristján Andri hefur setið í bæjarstjórn í tvö kjörtímabil. „Það eru fyrst og fremst persónulegar ástæður sem ráða því að ég þarf að forgangsraða öðruvísi en ég gerði. Svo er ég kominn í annað starf og það var auðveldara að sinna bæjarmálunum þegar ég var að vinna hjá sjálfum mér,“ segir Kristján Andri.

Áður en hann tók sæti í bæjarstjórn sem aðalfulltrúi var hann bæjarfulltrúi og honum telst til að hann hafi setið í hafnarstjórn í 16 ár. Þrátt fyrir að ætla að hætta í vor segir hann ekki ólíklegt að hann þiggi sæti á listanum, en það verður ekki í einu af efstu sætum listans.

Oft er sagt að starf stjórnmálamannsins sé vanþakklát en Kristján Andri leggur áherslu á að þrátt fyrir að stundum blási á móti hafi þessi átta ár í bæjarstjórn verið gefandi og þroskandi fyrir sig persónulega. „Ég hvet alla sem eru eitthvað að hugsa um að gefa kost á sér að láta slag standa og beita sér fyrir málefnum sveitarfélagsins á vettvangi bæjarstjórnar.“

DEILA