BB heimsótti Heimi Hansson, einn af skipuleggjendum Fossavatnsgöngunnar til að fá fréttir af undirbúningi og svolítið um sögu þessa stærsta íþróttaviðburðar Vestfjarða.
Fossavatnsgangan var fyrst gengin árið 1935, þannig að hún er líklega með elstu íþróttaviðburðum sem enn eru við lýði á Íslandi. Upphaflega var hún aðeins ætluð heimafólki, svo að utanbæjarmenn sem vildu taka þátt máttu eingöngu gera það sem gestir en ekki sem fullgildir þátttakendur. Þetta breyttist eftir að mótaröðin Íslandsgangan var stofnuð árið 1985, en sú mótaröð einhverskonar samstarfsvettvangur almenningsmóta í skíðagöngu vítt og breytt um landið. Fossavatnsgangan var með í þessu samstarfi allt frá upphafi og þar með var opnað fyrir þátttöku alls skíðafólks, óháð búsetu. Það var svo í kringum árið 2000 að við fórum að skoða möguleika á að fá hingað erlenda keppendur. Íslendingar voru þá farnir að taka þátt í erlendum göngumótum í talsverðum mæli og okkur fannst að það ætti alveg eins að vera hægt að fá útlendinga til að koma til okkar. Stofnað var lénið Fossavatn.com þar sem hægt var að finna upplýsingar um gönguna á erlendum málum og svo voru líka prentaðir bæklingar á ensku, frönsku og þýsku, sem dreift var á keppnisstöðum erlendis. Þetta vakti strax nokkurn áhuga hér og þar, en en almennt þótti gangan of stutt, aðeins 20 km. Fæstir nenntu að ferðast á milli landa fyrir svoleiðis vegalengd.
Árið 2004 var ákveðið að bjóða upp á 50 km göngu og það má segja að þá hafi boltinn byrjað að rúlla svolítið. Fossavatnsgangan fór smátt og smátt að vinna sér nafn, var m.a. tekin inn á mótaskrá Alþjóðlega skíðasambandsins árið 2005, sem hjálpaði mikið til við að vekja athygli á henni. Erlendir keppendur tóku að mæta til leiks, fyrst bara einn og einn á stangli, en svo voru þetta orðnir kannski 20-30 manns. Fjöldinn fór svo stighækkandi en síðan varð alger sprenging í þátttöku árið 2015. Það ár var gangan í fyrsta sinn hluti af Worldloppet, en það er alþjóðleg mótaröð sem í eru 20 göngur í jafn mörgum löndum, þ.a.m. flestar stærstu og þekktustu almenningsgöngur í heiminum, á borð við Vasagönguna í Svíþjóð, Birkibeinagönguna í Noregi og Marcialonga á Ítalíu. Við það var Fossavatnsgangan komin rækilega á kortið og hefur erlendum þátttakendum fjölgað mjög mikið síðan. Ætli þeir séu ekki u.þ.b. helmingur þátttakenda í dag. Á sama tíma hefur svo orðið gífurleg skíðagönguvakning hér á Íslandi sem hafur skilað sér mög vel til okkar þannig að þátttakan undanfarin ár hefur farið fram úr villtustu draumum bjartýnustu manna. Við höfum þurft að setja þak á fjölda þátttakenda í lengstu vegalengdinni, 50 km, en þar er hámarkið núna 650 manns. Við þá tölu bætist svo heimafólk, en það fellur ekki undir þessa reglu um hámarksfjölda Í dag eru 618 gestir búnir að skrá sig í 50 km gönguna sem fer fram núna í apríllok, þannig að hún fer að fyllast hvað af hverju. Það lítur líka mjög vel út með styttri vegalengdirnar, 25 km, 12,5 km og 5 km, en það er ekkert þak á þátttakendafjöldanum þar, frekar en í 1 km barnagöngunni. Í fyrra fór heildarfjöldi skráninga yfir þúsund í fyrsta sinn, varð reyndar tæplega 1100, og það stefnir í að fjöldinn verði enn meiri í ár.
Mótahald af þessari stærðargráðu er mjög umgangsmikið og dýrt. Worldloppet gerir strangar kröfur til mótshaldara, sérstaklega varðandi öryggi og aðbúnað þátttakenda. Þá sendir Alþjóðlega skíðasambandið eftirlitsmann hingað á hverju ári til að ganga úr skugga um að öll framkvæmdin sé í samræmi við staðla og reglugerðir. Gangan hefur á undanförnum árum fjárfest mikið í allskyns búnaði til að auka öryggi þátttakenda og bæta mótahaldið. Nú er búið að setja varanlegar brautarmerkingar á hér um bil alla leiðina, á drykkjarstöðvunum er verið að koma upp skýlum sem nýtast bæði starfsfólki og þátttakendum, sífellt er verið að uppfæra tækni við tímatöku og þannig mætti lengi telja. Handtökin sem fylgja mótahaldinu eru óteljandi og þegar allt er talið koma sennilega um 300 sjálfboðaliðar að mótinu, beint og óbeynt.
Þegar vel árar og gangan skilar hagnaði er hann notaður til að efla Skíðafélag Ísfirðinga og skíðaíþróttina í bænum almennt. Það má ekki gleyma því að það er ekki bara „göngu armur“ Skíðafélagsins sem kemur að mótahaldinu, heldur er svigskíðafólkið líka óþreytandi við að standa vaktina. Þetta er verkefni sem félagið tekst á við í sameiningu og það er gaman að segja frá því að nú í ár fær æskan í Skíðafélaginu að njóta góðs af jákvæðri afkomu göngunnar, því Fossavatnsgangan ætlar að greiða þátttökugjöld allra ísfirskra barna á Andrésar andarleikunum, sem fram fara á Akureyri í apríl. Gangan greiðir líka kostnað fyrir fjóra þjálfara sem fylgja krökkunum og býður svo öllum börnunum, foreldrum þeirra og fylgdarfólki, í pizzupartý á Greifanum. Með þessu er bæði verið að efla félagsandann og þakka fyrir alla vinnuna sem fólk leggur á sig fyrir Fossavatnsgönguna.
Það má ekki heldur gleyma því að fjölmörg fyrirtæki leggja göngunni líka lið. Stærstu styrktaraðilarnir eru Íslandsbanki, Orkubú Vestfjarða, Hótel Ísafjörður, CraftSport, Air Iceland Connect, Wild Westfjords og Kubbur. Svo eru fjölmörg önnur fyrirtæki sem létta undir með okkur á ýmsa lund auk þess sem bærinn og skíðasvæðið hafa auðvitað reynst gífurlega vel. Allt skilar þetta sér líka í mjög skemmtilegu andrúmslofti í kringum gönguna. Útlendir gestir hafa talað um hvað þeim þyki gaman að koma hingað og finna hvernig allt samfélagið einhvern veginn sameinast um að gera þetta sem best úr garði.
Nú styttist mjög í næstu Fossavatnsgöngu og vinnan er komin á fullan skrið. Starfsmenn skíðasvæðisins eru farnir að huga að brautinni, þeir eru t.d. búnir að troða 12,5 km hringinn nokkrum sinnum upp á síðkastið og stefnt er að því að um páskana verði hægt að ganga mestalla 25 km brautina. Svo lengist þetta smám saman eftir því sem nær dregur mótsdeginum. Það má segja að Fossavatnshátíðin hefjist fimmtudaginn 26. apríl, en þá verður keppt í 25 km skautagöngu og svo verða tvær fjölskyuldugöngur, 5 km og 1 km. Laugardaginn 28. apríl verður svo 50 km gangnan, 25 km og 12,5 km. Það er nægur snjór á öllum leiðum eins og er svo að nú bara vonum við að veðrið verði okkur hagstætt það sem eftir er vetrar.