Fjölmennur íbúafundur á Hólmavík

Það var vel mætt á íbúafund í Strandabyggð sem haldinn var af sveitarfélaginu í félagsheimilinu á Hólmavík mánudagskvöldið 12. mars. Andrea Kristín Jónsdóttir sveitarstjóri setti fundinn og sagði frá því að ákveðið hefði verið að boða til fundarins í kjölfar bréfs sem barst sveitarstjórninni frá íbúa þar sem fram komu áhyggjur af fólksfækkun í sveitarfélaginu.

Í upphafi fundar fór sveitarstjórnin yfir hvað hefði verið framkvæmt á undanförnum árum í ólíkum málaflokkum, hvað væri í gangi og hvaða verkefni væru framundan.

Andrea sveitarstjóri var ánægð með fundinn: “Mér finnst mjög gott að fá þessa yfirsýn frá sveitarstjórninni. Það er mjög margt í gangi í sveitarfélaginu, en það vita kannski ekki allir hvað er að gerast í einstökum málum. Svo komu nokkrar spurningar og fullt af spennandi hugmyndum sem er bara frábært.”

Meðal þeirra hugmynda sem komu fram í hópavinnunni voru að leggja hitaveitu, gera göngustíga og taka til í bænum. Bæta á aðgengi fyrir fatlaða, bjóða upp á meiri hreyfingu fyrir fullorðna, sjúkraþjálfun og gera átak varðandi geðheilbrigði. Einnig að bjóða upp á námskeið í fjármálalæsi fyrir grunnskólabörn og foreldra þeirra, styðja vel við dreifnámið og bjóða upp á tónlistarnám í leikskólanum. Opna Fablab og styðja við sprotafyrirtæki, til dæmis í matvælaframleiðslu. Það komu líka fram ábendingar um að það þyrfti að byggja litlar leiguíbúðir eða smáhýsi og bæta móttökur nýrra íbúa á svæðinu

-Dagrún

DEILA