Bolvíski fótboltamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason var á skotskónum fyrir Helsingborg um helgina, en hann skoraði þá tvö marka liðsins í 3:0-sigri gegn Tvååkers í lokaumferð riðlakeppninnar í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu. Andri Rúnar var nærri því að skora fleiri mörk, en í tvígang átti hann skot í stöng. Mörk Andra Rúnars komu bæði í fyrri hálfleik áður en Helsingborg innsiglaði sigurinn í blálokin. Þetta voru fyrstu mörk hans fyrir Helsingborg eftir að hann gekk í raðir liðsins frá Grindavík í vetur.
Sænska bikarkeppnin er leikin í átta fjögurra liða riðlum, þar sem sigurvegarar riðlanna komast í átta liða úrslit sem eru leikin sem hefðbundin útsláttarkeppni.
Sigurinn dugði Helsinborg ekki til að komast áfram í bikarnum en liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins, með jafnmörg stig og sama markahlutfall og Örebro sem hafði betur í innbyrðis viðureignum liðanna.
Hér má sjá mörk Andra Rúnars.