Vegtollar ótæk flóttaleið stjórnvalda

Undir liðnum umræður um störf Alþingis í síðustu viku, vakti Bjarni Jónsson varaþingmaður VG í Norðvesturkjördæmi máls á ástandi vega og skattheimtu. Benti hann á að verulega skorti upp á að tekjur sem ríkissjóður hefur af bifreiðaeigendum skili sér í uppbyggingu samgöngukerfisins. Bjarni nefndi úr sér gengna og laskaða vegi víða í kjördæminu, svo sem eins og í Árneshreppi.

Bjarni brýndi Alþingi og samgönguráðherra til að standa sig betur í þessum efnum. „Góðar samgöngur eru lífæð byggðanna. Það er ekki tæk flóttaleið eftir áralanga vanrækslu í samgöngubótum að ætla að fjármagna þær með vegtollum á íbúa einstakra svæða, svo sem íbúa á Akranesi og í Borgarfirði. Samgönguráðherrar sem tala fyrir slíku sýna uppgjöf gagnvart því verkefni að tala fyrir og tryggja fjármuni í nauðsynlegar samgöngubætur af þeim tekjustofnum sem þó eru til þeirra markaðir með margvíslegri gjaldtöku, svo sem af eldsneyti, umferð, bílum og fleiri þáttum,“ sagði Bjarni.

Minnti Bjarni á að 258 milljarða króna tekjur af umferð undanfarinna fimm ára hafi ekki verið nýttar til vegagerðar.

DEILA