Umtalsvert dýrara að byggja við íþróttahúsið

Teikning af knattspyrnuhúsi á Torfnesi úr skýrslu Vestra um knattspyrnuhús á Ísafirði.

Ljóst er að umtalsvert dýrara er að reisa knattspyrnuhús við hlið íþróttahússins á Torfnesi en að reisa það á gervigrasvellinum. Þetta kemur fram í fundargerð starfshóps um byggingu knattspyrnuhúss á Ísafirði. Í starfshópnum sitja bæði fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og bæjarfulltrúar.

Ef húsið væri reist þétt við íþróttahúsið þyrfti að færa aðalvöllinn til suðurs. Það sem veldur auknum kostnaði eru breytingar á áhorfendastúku sem þyrfti að ráðast í ef aðalvöllurinn yrði færður. Þá þyrfti að breyta aðkomu í brekku við Vallarhús og einnig er ljóst að jarðvegsskipti yrðu dýrari þar sem svæðið er á gömlum sorphaugum.

Nefndin er einróma um að færsla aðalvallar sé með öllu óásættanleg leið og áfram skuli stefnt að því að reisa knattspyrnuhús við Vallarhúsið á Torfnesi.

DEILA