Það er af og frá að enginn fyrirvari um eignarhald á vatnsréttindum í Dagverðardal sé í samningi Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. sem áformar að reisa 200 kílóvatta virkjun í Úlfsá í Dagverðardal. Þetta segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Í gær var greint frá bréfi lögmanns Orkubús Vestfjarða, en fyrirtækið telur sig eiga vatnsréttindin. Gísli Halldór segir að þrátt fyrir að þessi fyrirvari sé í samningnum er það hans mat að Ísafjarðarbæ eigi þessi vatnsréttindi. „Þessi gjörningur stenst ekki að mínu mati. Stenst líklega ekki orkulög og ekki í samræmi við lög um stofnun Orkubúsins. Ísafjarðarkaupstað var ekki heimilt að gefa Orkubúinu þetta enda um almannaeigur að ræða og ég bendi á að þessi réttindi hafa ekki verið talin fram sem eign í ársreikningum Orkubúsins,“ segir Gísli Halldór um undirritað samkomulag frá árinu 1978 þegar Ísafjarðarkaupstaður afhenti Orkubúinu öll virkjunarréttindi, þekkt og óþekkt, um alla framtíð.
Gísli Halldór segir að bærinn og AB-Fasteignir hafi nú þegar undirritað leigusamninginn sem er til 25 ára. Að hans sögn er næsta skref hjá fyrirtækinu að fá samþykki Orkubúsins um að tengja virkjunina og einnig að fá virkjunarleyfi hjá Orkustofnun. Gísli Halldór gerir ráð fyrir því að Orkustofnun skoði vatnsréttindamálin áður en hún tekur afstöðu til virkjunarleyfis. Fari það svo að Orkustofnun úrskurði að vatnsréttindin séu í eigu Orkubúsins segir Gísli Halldór að bærinn muni íhuga alvarlega að kæra þann úrskurð.
Gísli Halldór segir mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum að fá úr þessu skorið, enda Ísafjarðarbær ekki eina sveitarfélagið í þessari stöðu. Hann segir bæinn tilbúinn í dómsmál til að verja stöðu sína.