Segir samning Ísafjarðarbæjar ólöglegan og saknæman

Lögfræðingur Orkubús Vestfjarða segir hafið yfir allan vafa að samningur Ísafjarðarbæjar við AB-Fasteignir efh. sé ólöglegur og saknæmur. Þetta kemur fram í bréfi Jónasar A. Aðalsteinssonar, lögfræðings hjá lögmannsstöfunni LEX.

Ísafjarðarbær, eins og önnur sveitarfélög á Vestfjörðum, afsalaði sér öllum virkjunarréttindum í eigin landi til Orkubús Vestfjarða þegar fyrirtækið var stofnað fyrir 40 árum. Orkubúið hefur mótmælt samningnum sem bærinn gerði við AB-Fasteignir, en fyrirtækið hyggst virkja Úlfsá í Dagverðardal og er ráðgert að virkjunin verði 200 kílóvött.

Í bréfi lögmannsins er sérstaklega bent á að samningurinn, sem ekki hefur verið undirritaður enn, hafi tekið breytingum. Í fyrri drögum stóð að komi í ljós að Ísafjarðarbær sé ekki lögmætur eigandi alls lands og vatnsréttinda í Úlfsá falli samningurinn niður báðum aðilum að skaðlausu.

Í síðari drögum var þessi fyrirvari tekinn úr samningnum og í staðinn stendur að Ísafjarðarbær sé réttur og lögmætur eigandi alls lands og vatnsréttinda sem nauðsynleg eru til að virkja og reka Úfsárvirkjun.

Þetta segir lögmaður Orkubúsins að baki Ísafjarðarbæ skaðabótaskyldu gagnvart AB-Fasteignum, þar sem bærinn eigi ekki umrædd réttindi.

Orkubúið áskilur sér allan rétt til að hnekkja sölusamningnum með hverjum þeim réttarfarslegu aðgerðum sem unnt er að viðhafa.

DEILA